Marinó G. Njálsson skrifaði:
Ég heyri samt hvernig glerinu rignir yfir hann í Svörtuloftum, þegar glerhús réttlætinga hans brotnar.
Löngu tímabærir hlutir eiga bara við, þegar það er Seðlabankinn sem þarf að eyða. A.m.k. má ráða það af viðbrögðum talsmanns bankans við gagnrýni á 3 milljarða útgjöld bankans við yfirtökuna á Fjármálaeftirlitinu. Yfirtöku sem varð að hafa það í för með sér, að flytja á annað hundrað starfsmenn úr ódýru skrifstofuhúsnæði í eitt dýrasta skrifstofuhúsnæði landsins.
Að fjölskyldur sem frestuðu utanlandsferðum í tvö ár vegna heimsfaraldurs, hafi nýtt sér góðan sparnað og afléttingu takmarkana til að ferðast, er hins vegar óráðsía og hættulegt.
Samkvæmt frétt á visir.is þá vinna 300 manns hjá Seðlabankanum og framkvæmdakostnaður er alls 3 milljarðar. Það gerir 10 m.kr. á hvern starfsmann. Fyrir þessar 10 m.kr. gætu líklega um 60-80 manns dvalið á Tene í 7-10 daga, sem mér skilst að sé meðaldvöl í slíkum ferðum. Þannig að hinn löngu tímabæri kostnaður Seðlabankans jafngildir því að ca. 20-25 þúsund manns hafi farið til Tene. Spurning hvort þetta margir hafi yfirhöfuð farið til Tene á árinu.
Heitir þetta ekki að sjá flísina í augum náungans en ekki ekki bjálkann í eigin augum?
Ég er alveg viss um, að seðlabankastjóri á alveg fullt af réttlætingum á þessu bruðli bankans á sama tíma og hann er að hvetja til varúðar. Ég heyri samt hvernig glerinu rignir yfir hann í Svörtuloftum, þegar glerhús réttlætinga hans brotnar.
Marinó birti greinina fyrst á Facebooksíðu sinni.