„Núna blasir við hvers vegna svo miklu máli skipti að skýrslan kæmi ekki fram í dagsljósið fyrr en að landsfundi Sjálfstæðismanna afstöðnum. Óvíst er að landsfundarfulltrúar hefðu treyst sér til að endurnýja umboð formannsins sem ber óskipta ábyrgð á því að valdir einstaklingar fengu að kaupa hluti í útboðinu, en ekki einungis viðurkenndir gagnaðilar á markaði, þvert gegn ráðleggingum ráðgjafa Bankasýslunnar,“ skrifar Ólafur Arnarsson í Fréttablað dagsins.
„Önnur skýrsla hefur ekki vakið eins mikið umtal og sú um bankasöluna. Í maí 2020 skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu um starfsemi Lindarhvols, sérstaks félags sem fjármálaráðuneytið stofnaði til að annast sölu á ákveðnum eignum sem þrotabú gömlu bankanna skiluðu til ríkisins.
Þessi skýrsla er enn óafgreidd tveimur og hálfu ári eftir að hún kom inn í þingið. Helsta ástæðan fyrir því er að forseti Alþingis situr eins og ormur á gulli á greinargerð fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda um málið og neitar að afhenda þingnefndum og fjölmiðlum þrátt fyrir að forsætisnefnd hafi í apríl síðastliðnum samþykkt að afhenda Viðskiptablaðinu greinargerðina.
Greinargerð fyrrverandi ríkisendurskoðanda um Lindarhvol dregur upp dökka mynd af starfsemi félagsins, ólíkt skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem sumir kalla hvítþvott. Hversu lengi ætlar forseti Alþingis að sitja á greinargerð sem búið er að samþykkja að gera opinbera? Hversu lengi láta þingmenn bjóða sér slíka háttsemi af hálfu forseta?“