Ole Abto n Bieltved skrifar eftirtektarverða grein i Moggann í dag. Þar fjallar hann um hreindýraveiðar. Seinni hluti greinarinnar er hér:
„Umhverfisráðherra státaði sig af því, að hafa drepið saklaust og varnarlaust hreindýr, með mynd á netinu; situr þar glaðhlakkanlegur og stoltur á svip yfir dauðu dýrinu.
Svo neitar hann nú að gefa upp, hvort hann hafi haldið áfram þessari óyndisveiðimennsku, eftir að hann varð umhverfisráherra og hefur þá eiðsvörnu skyldu, að verja og vernda villt dýr, náttúru og lífríki landsins.
Þorir hann ekki að standa fyrir sínum gjörðum!? Vonandi var hann ekki á gæsaveiðum, þegar hann fótbrotnaði, en stofn grágæsa hefur minnkað um helming síðasta áratuginn.
Skv. veiðiskýrslum fyrir hreindýr sumarið 2018, höfðu 33 þeirra dýra, sem þá voru drepin, verið skotin áður. Ekki er líklegt, að öll slík mál séu færð til bókar, og ekki eru þau dýr talin með, sem komast særð undan veiðimanni, til að deyja drottni sínum í kvalræði. Náttúran tekur hræ ótrúlega hratt.
Skv. útreikningum sérfræðingsins norska, yfirfært á hreindýr hér, má ætla að 100-150 dýr séu særð og limlest árlega, án þessa að drepast strax.
Fyrir nokkru var fyrirsögn í blaðinu, þvert yfir síðuna, „Veiðin hefur hrunið á svæði 2“ og átti við um hreindýraveiðar. Umhverfisstofnun veitti leyfi til veiða á 170 hreindýrum, en veiðimönnum tókst aðeins að fella 64. Svæði 2 hefur þó löngum verið „gjöfulasta veiðisvæðið“. Stjórn veiðanna greinilega í alvarlegum ólestri þar. Á kostnað dýranna.
Ekki verður um hreindýraveiðar á Íslandi fjallað, án þess að rifja það upp, að um 600 hreinkálfar fórust veturinn 2018-2019, að mestu vegna þess, að búið var að drepa mæður þeirra. Á því er byrjað 1. ágúst, þegar yngstu kálfar eru rétt 7-8 vikna. Standa varla í fæturna.
Fagráð um velferð dýra vill þó griðatíma fyrir kálfana meðan kýrnar, mæðurnar, eru mylkar. Í 5 mánuði frá fæðingu. En slíkum þarflausum griðatíma fyrir kálfana hafna veiðimenn og ráðherra auðvitað alfarið.“