Gunnar Smári skrifar:
„Ég held að allir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins fagni úrslitum formannskjörsins, þótt fólk láti á engu bera. Hnignun Sjálfstæðisflokksins undir forystu Bjarna mun halda áfram. Hann hefur sveigt flokkinn á braut nýja-hægrisins í Evrópu, frá hefðbundnum íhaldsflokkum Norðurlanda og meginlandsins. Andúð gegn flóttafólki og innflytjendum er orðin ásýnd flokksins og andstaða gegn þungunarrofi. Og ólund gagnvart mannréttindum jaðarsettra hópa, fullveldistal og þjóðernisbelgingur enn meira áberandi en áður var. Allt eru þetta einkenni á ný-hægrinu; Svíþjóðardemókrötum, Bræðralagi Ítalíu, franska Þjóðfundinum og Valkosti fyrir Þýskaland. Þetta eru flokkar sem slá upp í núverandi fylgi Sjálfstæðisflokksins þegar þeir hafa forystufólk við alþýðuskap. Sem Bjarni hefur ekki,“ skrifar hann og er hvergi hættur:
„Leið Bjarna frá klassískri íhaldsstefnu þrengir að vexti Miðflokks og Flokks fólksins en skapar rými fyrir frjálslyndan hægri flokk, sem Viðreisn hefur af einhverjum ástæðum mistekist að verða. Ofuráhersla á ESB og evru yfirskyggir alla pólitík flokksins svo það jaðrar við að hann sé eins máls flokkur. Í þinginu hefur Viðreisn tengt sig í öðrum málum við Samfylkingu og Pírata, sem er alls ekki klókt fyrir hægri flokk sem vill vaxa á kostnað xD. Og það sama má segja um meirihlutann í Reykjavík. Viðreisn á að hætta að óttast það að vera kallaður hægri flokkur (því miður eru stjórnmálin enn á leið til hægri, fráleitt fyrir hægri flokka að telja hægri skammaryrði).
Ef ég ætti að ráðleggja Viðreisn myndi ég segja þeim að einblína á Sjálfstæðisflokkinn og hægri miðjuna (með áherslu á hægri). Smáatvinnurekendur og einyrkjar ættu að vera markhópurinn, ekki sérfræðingar. Sjálfstæðisflokkurinn þjónar aðeins allra auðugustu fjármagnseigendunum og allra stærstu eigendum allra stærstu fyrirtækjanna. Viðreisn gæti haldið því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefði svikið sjálfstæðisstefnuna, að hennar lögheimili væri núna Viðreisn.
Og svo ætti flokkurinn að keyra á frjálslyndi sem Sjálfstæðisflokkurinn styður ekki; svo sem þungunarrof og önnur kvenréttindi.“
Tækifæri Viðreisnar?
Viðreisn er hinn sanni Sjálfstæðisflokkur, gamli góði Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfstæðisflokkur með hjarta, samvisku og heila – ekki bara veski.
„Eftir landsfundinn eru 40% landsfundagesta óánægðir með útkomuna. Kannanir hafa sýnt að Bjarni nýtur miklu minna stuðnings meðal kjósenda síns flokks en aðrir formenn. Hlutfallið meðal almennra kjósenda má því vera enn hærra.
Fyrir utan stuðningsfólk Bjarna ætti Viðreisn því að fagna mest úrslitum dagsins. Kalla ætti saman flokksstjórn í kvöld og samþykkja að hætta öllu tali um að flokkurinn væri EKKI klofningur úr Sjálfstæðisflokknum. Leggja þess í stað áherslu á að Viðreisn sé arftaki sjálfstæðisstefnunnar nú þegar elítan hefur tekið Valhöll yfir að fullu. Fá forystu Samtaka smáfyrirtækja yfir í flokkinn (draga aðeins úr ásókn í sérfræðinga og frægt fólk úr fjölmiðlum) og aðra með raunveruleg tengsl við mögulegan kjósendahóp. Og móta herfræði sem byggir á að herja á Sjálfstæðisflokkinn fyrst og síðast (að taka 1,5% frá xS vegna minni áherslu á ESB mun ekki styrkja Viðreisn til langframa. Auk þess hafa ESBsinnar ekki í önnur hús að venda).
Viðreisn er flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn gæti hafa orðið ef hann hefði ekki verið yfirtekinn af elítunni. Elítan sem auðgaðist mest á tímum nýfrjálshyggjunnar ætlar að verja auð sinn og völd með ný-hægri/létt-fasisma. Viðreisn er hinn sanni Sjálfstæðisflokkur, gamli góði Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfstæðisflokkur með hjarta, samvisku og heila – ekki bara veski.
Planið mætti vera eitthvað á þessum nótum. Það ætti að móta það strax og hefja strax árás. Kastalinn er veikur.“