Umræðan Á fróðlegum fundi, sem félagasamtökin Varðberg efndu til í dag, fjallaði Andri Lúthersson um utanríkisþjónustu til framtíðar, hagsmunagæslu í síbreytilegum heimi. Hann lagði fram vandaða skýrslu stýrihóps, sem skipaður var til að fjalla um þetta efni.
Á fundinum kom fram, að hvern einasta dag ársins eru um 70 þúsund Íslendingar erlendis. Af þessum hópi eru 40 þúsund búsettir, en 30 þúsund á ferðalagi. Í skýrslunni kemur fram, að enginn fjölþjóðasamningur hafi fært eins miklar bjargir í bú og EES samningurinn um evrópska efnahagssvæðið. Þar segir m.a. „…forsjálni og framsýni stjórnmálamanna og þeirra, sem stýrðu samningagerð Íslands, sköpuðu forsendur, sem virkuðu í raun sem hraðall fyrir þróun og nútímavæðingu..“
Fram kemur, að Evrópa er langstærsta viðskiptasvæði Íslendinga með viðskipti að fjárhæð 878,1 miljarð króna. Næst koma Bandaríkin með 162,1 miljarð og Asía með 143,2 miljarða. Viðskipti við Bretland nema um 100 miljörðum á ári, og má af því sjá hve mikilvægt er, að Brexit trufli ekki þessi viðskipti. – Annars er þessi skýrsla uppfull af fróðleik og segir frá margvíslegum breytingum á utanríkisþjónustu okkar.
Árni Gunnarsson.