70 milljarða mengandi ólukkuverksmiðja – á kostnað skattgreiðanda
Mér er til efs að Húsvíkingar séu ánægðir með þetta skrímsli.
Tómas Guðbjartsson skrifar:
„Mengandi ólukkuverksmiðja – á kostnað skattgreiðanda.
Það var skelfileg ákvörðun að planta niður kísilverksmiðju á Bakka við Húsavík, sem áður var einn fallegasti fjörður á Íslandi. Þetta var framkvæmd sem merkilegt nokk skrifast að mestu á VG með Steingrím Sigfússon í broddi fylkingar. Ekki nóg með að verksmiðjan brenni 100 þús. tonna af kolum á ári þá þurfti meiriháttar virkjanaframkvæmdir á Þeistareykjum með tilheyrandi línulögnum í næsta nágrenni Mývatns.
Starfsemin hefur gengið brösuglega frá byrjun og mér er til efs að Húsvíkingar séu ánægðir með þetta skrímsli, svona rétt við þröskuldinn á nýopnuðum jarðböðum og steinsnar frá stærstu hvalaskoðunarfyrirtækjum landsins.
Fyrrverandi umhverfisráðherra Björt Ólafsdóttir telur að þessi veisla hafi kostað okkur skattborgarana allt að 70 milljarða króna – sem er svona eitt stykki nýr Landspítali. Býsna dýr atkvæði þetta.“