- Advertisement -

7.600 heimili voru rafmagnslaus

Hér er ræða Katrínar Jakobsdóttur á Alþingi, fyrr í dag, um afleiðingar óveðursins:

Katrín Jakobsdóttir.

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta og Alþingi fyrir að fá þetta tækifæri til að fara yfir stöðu mála í kjölfar þess aftakaveðurs sem hér geisaði í síðustu viku frá 10.– 11. desember sl. Það er ekki ofsögum sagt þegar við tölum um aftakaveður en fram hefur komið, m.a. hjá Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi, að horfa þurfi allt aftur til ársins 1973 til að sjá sambærilegt veður, norðanveður með seltu þar sem þrýstingur yfir landinu er sambærilegur, en slíkt veður gekk yfir landið í febrúar í miðju Heimaeyjargosinu. Annað slíkt veður var árið 1965 en í því veðri gaf Dalvíkurlínan þáverandi sig einnig. Önnur norðanveður með seltu sem gengið hafa yfir landið voru þó ekki jafn slæm en þó má nefna fjárfellisveðrið árið 2012 þegar ísing hlóðst á línur og margir rafmagnsstaurar gáfu sig.

Fram hefur komið sömuleiðis að Landsnet hefur aldrei fengið viðlíka seltu og ísingu á spennuvirki í Hrútatungu sem hefur verið til í núverandi mynd frá árinu 1980, sem er til marks um að þetta var ekkert venjulegt veður. En það breytir því ekki að veðrið minnir okkur á hvar við búum, að við getum alltaf átt von á slíkum veðrum og verðum að vera undirbúin þegar þau ganga yfir, jafnvel þó að þau séu ekki sem betur fer á hverjum degi.

…að þetta veður og afleiðingar þess afhjúpaði veikleika í innviðum okkar…

Ég vil fyrst segja að það er alltaf skelfilegt þegar slík veður valda mannskaða. Það varð í þessu veðri og slíkt tjón verður auðvitað aldrei bætt. Það er auðvitað það versta sem getur gerst í viðlíka veðri. En það liggur líka fyrir að tjónið á hinum veraldlegu þáttum er verulegt vegna rafmagnsleysis fyrst og fremst, kælingar á húsum, foktjón sömuleiðis töluvert, matur skemmdist í matvöruverslunum. En um leið vil ég segja, eftir að hafa farið í heimsóknir á Norðurland í lok síðustu viku, að sjálfsögðu ekki hitt alla þá aðila sem þar komu að málum en marga þeirra, að það er alveg ljóst að við eigum alveg ótrúlegan kraft í samfélagi okkar því að viðbragðsaðilar unnu margir hverjir þrekvirki í sínum störfum, voru linnulaust við þau sólarhringum saman og unnu í raun og veru kraftaverk. Um leið þurfum við að horfast í augu við það að þetta veður og afleiðingar þess afhjúpaði veikleika í innviðum okkar sem við verðum að bregðast við og mun ég núna rekja það.

Þegar við horfum til viðbragðsaðila okkar voru fyrstu viðvaranir Veðurstofunnar gefnar út sunnudaginn 8. desember en mánudaginn 9. desember var viðvörunarstig á Ströndum og Norðurlandi vestra hækkað í rautt. Þriðjudaginn 10. desember var viðvörunarstig á Norðurlandi eystra hækkað í rautt. Rauðar viðvaranir voru vegna þessa veðurs gefnar út í fyrsta sinn frá því að litakóðaviðvörunarkerfi Veðurstofunnar var tekið upp 1. nóvember 2017. Rauðar viðvaranir lýsa hættulegum veðrum sem hafa mikil samfélagsleg áhrif og slík veður eru sjaldgæf en, eins og ég nefndi hér áðan, getum við búist við slíkri veðurhæð á Norðurlandi á allt að tíu ára fresti.

Rafmagnsleysið sem stóð yfir og stendur enn sums staðar á landinu.

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi 9. desember. Hættustigi var lýst yfir á Ströndum á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra þann 10. desember. Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð var virkjuð kl. 11 þann 10. desember og þar fór samhæfing aðgerða á landsvísu fram. Nær allir vegir á landinu lokuðust vegna veðurhæðar og hálku, að Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi undanskildum. Í kjölfarið bættist við fannfergi á vegum, einkum norðanlands. Lengst var lokað á norðanverðu landinu en það var upp úr hádegi hinn 12. desember sem búið var að opna nær alla aðalvegi og gekk Vegagerðinni nokkuð vel að ráða við afleiðingar veðursins. Þar réð úrslitum að varað var við veðrinu á áberandi hátt þannig að umferð var ekki mikil. Upplýsingagjöf í aðdraganda veðursins var öflug og góð.

Rafmagnsleysið sem stóð yfir og stendur enn sums staðar á landinu, enn eru rafmagnstruflanir um land, er eitt mesta viðvarandi rafmagnsleysi og umfangsmesta sem við höfum séð. Stæður brotnuðu víða og höfðu áhrif, m.a. á Dalvíkurlínu, Kópaskerslínu og auk þess höfðu bilanir í flutningskerfi þær afleiðingar að fjöldi fólks var án rafmagns eða hafði takmarkað rafmagn. Þar sem verst lét var rafmagnslaust í þrjá sólarhringa. Hefur verið unnið sleitulaust að því að koma rafmagni aftur á og þar hafa aðstæður verið erfiðar með gríðarlegri ísingu á línum, eins og ég nefndi áðan, en sömuleiðis hefur verið beitt ýmsum óvenjulegum aðferðum við að bregðast við rafmagnsleysi. Þar má nefna að varðskipið Þór hefur séð Dalvíkurbyggð að hluta til fyrir rafmagni frá því á aðfaranótt föstudags. Rarik mun þurfa að keyra varaafl þangað til búið er að gera við flutningskerfi Landsnets og enn er mikið af bilunum í dreifikerfi Rarik sem mun taka nokkra daga að lagfæra. Það má búast við truflunum á afhendingu rafmagns meðan þetta ástand varir og sömuleiðis má búast við mögulegum skömmtunum á rafmagni nú þegar atvinnulífið fer í gang eftir helgi.

Björgunarsveitir hafa leyst langt yfir 1.000 verkefni og aðstoðarbeiðnir á landsvísu.

Samkvæmt upplýsingum frá almannavarnanefnd ríkislögreglustjóra má ætla að það hafi verið 11.000 íbúar sem bjuggu við rafmagnsleysi þennan tíma á 7.600 heimilum. Tetra-kerfi viðbragðsaðila varð fyrir truflunum vegna rafmagnsleysis en var farið að færast í eðlilegt form síðdegis 12. desember og nú í dag eru allir sendar kerfisins í lagi fyrir utan einn.

Þá vil ég nefna sérstaklega hlut björgunarsveitanna en í heildina hafa um 800 björgunarsveitarmenn verið við störf undanfarna daga. Á Norðurlandi voru bjargir sóttar frá nærliggjandi svæðum auk liðsauka frá Suðvesturlandi og Vesturlandi. Björgunarsveitir hafa leyst langt yfir 1.000 verkefni og aðstoðarbeiðnir á landsvísu. Þar má sjá að vegna aðvarana um veðrið sendi Slysavarnafélagið Landsbjörg öfluga snjóbíla á lykilstaði á Norðvesturlandi og Ströndum áður en veðrið skall á. Björgunarsveitir hafa jafnframt liðsinnt heilbrigðisstarfsmönnum, m.a. með því að flytja fólk á milli staða og aðföng. Þá hafa fjöldahjálparstöðvar á vegum Rauða krossins verið opnar víða um land vegna óveðursins og sjálfboðaliðar staðið vaktina þar. Björgunarsveitirnar hafa sinnt aðstoð við veitufyrirtæki, unnið við að flytja varaaflsstöðvar milli bæja. Bændur hafa verið að aðstoða við leit að skepnum og björgun þeirra en eins og lesa má í fréttum í dag er þetta einn mesti hrossafellir í áratugi.

Þá hafa, og ég vek sérstaklega athygli á því, björgunarsveitarfólk og sjálfboðaliðar Rauða krossins heimsótt bæi og haft samband við fólk á bæjum til að kanna um hagi þess og ég veit að þetta er einstakt fyrir samfélag okkar, við höfum nokkuð vel kortlagt hverjir búa hvar, þannig að það hefur verið haft frumkvæði að því að hafa samband við fólk til að kanna aðstæður.

Það er ljóst að eignatjón hefur orðið víða.

Heilbrigðisstofnanir hafa verið mannaðar, ekki hefur komið til rofs á þjónustu og þótt óveðrið hafi haft mikil áhrif á heilbrigðisþjónustu, ekki síst vil ég nefna Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga sem var rafmagnslaus í 40 klukkustundir því að þar var ekki varaafl til að tryggja rafmagn. Símtöl við Neyðarlínuna voru tæplega 40% yfir meðallagi 10. og 11. desember þannig að það er ljóst að þetta var ekkert eðlilegt veður og ekkert eðlilegt álag á allt okkar fólk. Það er ljóst að eignatjón hefur orðið víða og það verður seint fullþakkað hversu viðbragðsaðilar hafa staðið vaktina vel. Almenningur reyndist líka vel undirbúinn en eftir standa áleitnar spurningar og á þeim vil ég ljúka máli mínu. Bæði til skemmri og lengri tíma og í stóra samhenginu snúast þær m.a. um stöðu almannavarna á Íslandi. Hún hefur verið rædd á vettvangi þjóðaröryggisráðs á fyrri stigum og þar stendur yfir vinna við úttekt á almannavarnakerfinu. Ég tel einboðið að við verðum að flýta þeirri vinnu. Ég veit að hæstv. dómsmálaráðherra mun koma inn á það í innleggi sínu á eftir. Við þurfum að átta okkur á því að m.a. vegna tæknibreytinga og þeirrar staðreyndar að við erum háðari rafmagni nú en við vorum til að mynda þegar sambærileg veður gengu yfir á sjöunda og áttunda áratugnum, hefur rafmagnsleysið ótrúlega umfangsmikil áhrif, ekki bara á hitun heldur líka fjarskipti og er því risastórt almannavarnamál.

Annað sem ég vil nefna er að ég boðaði þjóðaröryggisráð á fund, óreglulegan fund, þegar ljóst varð hvert stefndi með afleiðingar veðursins. Það má segja að mínu viti að þetta hafi verið mikilvæg aðgerð til þess að allir aðilar kæmu saman á einn stað og ég held að þetta muni verða okkur lærdómur til framtíðar hvað varðar hlutverk þjóðaröryggisráðs. Það verður að geta brugðist hratt við þegar slíkar aðstæður koma upp og hugsanlega þarf að skýra það betur þegar við endurskoðum þjóðaröryggisstefnuna hvert hlutverk þjóðaröryggisráðs nákvæmlega á að vera þegar við fáum slíkar viðvaranir.

Þá þarf sérstaklega að gera áætlanir um hvar við viljum setja niður varaaflsstöðvar víða um land.

Ég vil nota síðustu sekúndur mínar til að greina frá því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja niður átakshóp fimm ráðuneyta. Var formaður þess starfshóps með okkur í för nú fyrir helgi á Norðurlandi til þess að setja niður tillögur um þær nauðsynlegu úrbætur sem þarf að ráðast í á innviðum, bæði hvað varðar raforkukerfi og fjarskipti, tillögur um forgangsröðun aðgerða en líka um skipulagningu, því að það liggur fyrir að þetta mál snýst ekki eingöngu um hina áþreifanlegu innviði heldur líka það hvernig við skipuleggjum mannafla okkar, hvernig honum er dreift um landið og hvernig við bregðumst við þegar eitthvað dynur á, eins og til að mynda í tengivirkinu í Hrútatungu sem er ómannað. Þá þarf sérstaklega að gera áætlanir um hvar við viljum setja niður varaaflsstöðvar víða um land því að það liggur fyrir, ég nefndi áðan með Heilbrigðisstofnunina á Hvammstanga að þar hefði þurfti að vera varaaflsstöð til staðar. Sá hópur mun skila af sér fyrir 1. mars nk. og ég vænti þess að við munum geta rætt þær tillögur þá á vettvangi þingsins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: