Sólveig Anna skrifar:
Annar fundur á vettvangi hreyfingar vinnandi fólks þar sem ég varð vitni að útlendingafordómum er mér minnisstæður. Hann sat ég ásamt forseta Alþýðusambandsins og Höllu Gunnarsdóttur, framkvæmdarstjóra. Fundurinn var fyrir vestan og haldinn til að eiga samtal svokallað við formann og meðlimi stjórnar verkalýðsfélags í bæ einum um málefni vinnandi fólks. Margt fólk af pólskum uppruna býr í bænum og eru meðlimir í verkalýðsfélaginu. Ítrekað talaði formaðurinn þannig á þessum fundi að ljóst var að gríðarlega miklir fordómar voru til staðar gagnvart pólska félagsfólkinu. Svokölluð útlendingaandúð. Hvorki forseti ASÍ né framkvæmdarstjóri ASÍ mótmæltu með einu orði þegar aftur og aftur var „vegið að“ hópi fólks „vegna þjóðernis þeirra“. Þær gerðu nákvæmlega ekki neitt til að reyna að uppræta þann augljósa farveg sem þarna var þegar til staðar og um rann stórfljót af útlendingaandúð. Þrátt fyrir þá yfirlýstu skoðun framkvæmdarstjóra ASÍ að „að við sem störfum fyrir verkalýðshreyfinguna – og reyndar við öll – eigum að mótmæla því að þegar vegið er að einstaklingum vegna þjóðernis þeirra og gæta þess að búa ekki til farveg fyrir útlendingaandúð.“
Efling
Eitt af því sem mér fannst ótrúlegast að verða vitni að var sú óhefta útlendingaandúð sem greinilega hafði fengið að viðgangast þar.
Þegar ég kom til starfa í Eflingu fannst mér margt undarlegt. En eitt af því sem mér fannst ótrúlegast að verða vitni að var sú óhefta útlendingaandúð sem greinilega hafði fengið að viðgangast þar. Starfsfólk kvað sér til dæmis hljóðs á fundum til að lýsa því yfir að félagsfólk ætti bara að læra íslensku frekar en að Efling legði metnað í að þjónusta alla félaga vel og dyggilega, sama hvaða tungumál þeir töluðu. En ég og félagar mínir létum þessi fráleitu viðhorf ekki stoppa okkur og hófumst ótrauð handa við að bæta alla þjónustu við aðflutt Eflingar-fólk, meðal annars með því að vera með upplýsingamiðlun á þremur tungumálum, textatúlka alla fundi, hefja vinnu við hina þrítyngdu glæpavefsíðu, útbúa Mínar síður fyrir félagsfólk (á þremur tungumálum), osfrv. Þegar kom að því að velja þingfulltrúa á fyrsta ASÍ þingið (þingið 2018 þar sem að Drífa Snædal var kjörinn forseti ASÍ, ekki síst vegna stuðnings míns og þingfulltrúa Eflingar) sem ég fór á mætti Efling til leiks með sannarlega fjölþjóðlegan hóp og sá tímamóta-atburður átti sér stað á þinginu að tvær Eflingar-konur ættaðar frá Ghana fóru í pontu og lýstu því hvernig það er að vera aðflutt verkakona á Íslandi. Í auglýsingum frá félaginu undir minni stjórn var lögð áhersla á að endurspegla fólkið sem greiðir til félagsins, hina raunverulegu eigendur Eflingar. Við lögðum tíma og fjármuni í að fara eins langt með mál fólks frá Rúmeníu sem lent hafði í klónum á Mönnum í vinnu. (Eitt sinn stuttu eftir að ég var tekin við formennsku leitaði til okkar aðflutt manneskja sem flúið hafði óbærilegar húsnæðisaðstæður og var á götunni, allslaus. Það var föstudagur og við vildum liðsinna þessari manneskju með inneignarkorti í matvöruverslun meðan að verið var að vinna í málinu. Þann „fjáraustur“ reyndi þáverandi fjármálastjóri að koma í veg fyrir. Hún hefði mögulega komist upp með það en Viðar Þorsteinsson og Ragnar Ólason gengu í málið og náðu að brjótast í gegnum múr forherðingar fjármálastjórans). Við styrktum og lánuðum fórnarlömbum hins skelfilega eldsvoða á Bræðraborgarstíg og skyldmennum þeirra sem þar létu lífið peninga til að þau gætu höfðað mál til að reyna að fá bætur fyrir hryllinginn (því var einn stjórnarmeðlimur sem gaf svo kost á sér til formanns í nýliðnum kosningum alls ekki hrifinn af; við eigum fyrst að hjálpa Íslendingum minnir mig að hann hafi sagt). Og svo mætti áfram telja.
ASÍ
Hvorki karlinn né hinar ötulu baráttukonur gegn kvenfyrirlitningu. Ég var svo lítils virði í þeirra huga að ég var í raun ekki til.
Ég veit að starfandi formaður Eflingar hefur farið um íslenska verkalýðshreyfingu með ásakanir á hendur mér um bæði rasisma og einelti. Hún hefur til dæmis reynt að halda því fram við hina og þessa að ákvarðanir stjórnar sjúkrasjóðs Eflingar undir minni forystu hafi litast af rasisma. Hún hefur ekki lagt fram neinar sannanir um þessa vonsku mína enda hefur hún lært að á slíku er engin þörf; innan hreyfingarinnar (og utan) er fjöldi valdamikils fólks sem vill ekkert frekar en heyra ógeðslegar sögur um mig, hversu fjarstæðukenndar sem þær eru.
Svo ég haldi aðeins áfram: Um leið og ég sagði af mér embætti formanns Eflingar var ég „dauð“ í augum forseta ASÍ og framkvæmdastjóra. Ég fékk ekki eitt símtal eða einn tölvupóst þar sem ég var spurð um mína hlið eða hvernig mér liði. Sú útskúfun sem ég hafði upplifað í minn garð var þarna fullkomnuð. Svo fullkomnuð að þegar ég sagði frá grafalvarlegri ofbeldishótun gegn mér frá starfsmanni skrifstofu Eflingar hópaðist framvarðarsveit SGS og fjöldi starfsmanna skrifstofu Alþýðusambandsins á Facebook vegg mannsins til að lýsa yfir stuðningi við hann, skilja eftir rafrænt knús og hjörtu. Lögfræðingur ASÍ skrifaði sérstaka athugasemd hjá manninum þar sem hann lýsti yfir afdráttarlausum stuðningi við manninn og vinsemd. Ég sendi þegar mér var bent á þessa athugasemd tölvupóst til lögfræðingsins þar sem ég lýsti andúð minni á þessu framferði hans. Voru forseti ASÍ og framkvæmdastjóri einnig viðtakendur. Ekki ein af þessum manneskjum svaraði póstinum. Hvorki karlinn né hinar ötulu baráttukonur gegn kvenfyrirlitningu. Ég var svo lítils virði í þeirra huga að ég var í raun ekki til. Hvort að kyn mitt hafi einhverju ráðið um það að ég var ekki virt svars veit ég ekki.
Forseti ASÍ ákvað um leið og ég sagði af mér að stilla sér upp með andstæðingum mínum. Af mikilli festu. Hún lét sér í léttu rúmi liggja það ömurlega virðingarleysi (svo vægt sé tekið til orða) sem starfandi formaður Eflingar hefur ítrekað sýnt hefðum, lögum, lýðræðislegum vettvöngum og vilja félagsfólks Eflingar. Allt það skipti miklu minna máli en óvináttan við mig. Í ljós hefur einnig komið að hin ofstækisfulla aðför gegn mér, leidd af trúnaðarmanni starfsfólks skrifstofu Eflingar, var unnin með stuðningi lögfræðinga ASÍ, en því lýsti trúnaðarmaðurinn í viðtali við Morgunblaðið fyrir skemmstu.
Ef að fólk innan ASÍ, framkvæmdastjóri og fleiri, trúa því að ég sé útlendingahatari vona ég að þau muni sýna mér það í verki að þeim finnist það ógeðslegt og til skammar, þegar ég tek loksins við embætti formanns Eflingar. En þau þurfa reyndar að muna að segja mér hversvegna þau séu að útskúfa mig vegna þess að annars er hætt við að ég fatti ekki að það sé vegna allra útlendingafordómanna og ekki bara vegna þess að ég er almennt óttalega óþolandi manneskja sem hefði betur látið hina frábæru, göfugu og útlendinga-elskandi íslensku verkalýðshreyfingu í friði svo hún gæti óáreitt haldið áfram öllu mikla frumkvöðulsstarfinu við að “virkja” aðflutta verkafólkið, með svo eftirtektarverðum og mögnuðum árangri.
Ég læt fylgja (veit ekki alveg afhverju) þá Eflingar-auglýsingu sem ég er stoltust af. Ég „hannaði“ hugmyndina og lét vinna. Eins og sjá má eru á myndinni konur allstaðar að úr heiminum, konur þær sem halda umönnunarkerfum Reykjavíkurborgar gangandi með vinnu sinni. Ég hef greinilega verið eitthvað annarshugar í útlendingafordómunum mínum þegar ég fékk þessa hugmynd.