- Advertisement -

Páll Magnússon: Saga af sjónum

Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, skrifaði forvitnilega grein sem birtist í Mogga dagsins. Þar gagnrýnir hann Illuga Jökulsson, og aðra sem tala á svpuðum nótum og Illugi.

Grein Páls hljómar svona:

„Hvernig er hægt að halda því fram af einhverju viti – að ekki sé nú talað um sanngirni – að engir nema „sægreifarnir“ njóti arðsins af auðlindinni?“

„Samt veit ég ekkert hvort ég myndi greiða aðild að Evrópusambandinu atkvæði mitt. Það myndi ráðast fyrst og fremst af því hvort endanlegur samningur hefði í för með sér að íslensk alþýða myndi njóta arðsins af auðlindum sínum í sjónum – íslensk alþýða, ekki bara sægreifarnir.“

Þetta sagði Illugi Jökulsson í ræðu á mótmælafundi á Austurvelli fyrir skömmu. Við Illugi unnum saman um skeið á Tímanum sáluga í gamla daga þegar verið var að reyna að fjarlægja hann Framsóknarflokknum og búa til sjálfstætt blað. Sú tilraun mistókst auðvitað en var samt skemmtileg. Allar götur síðan hef ég haft dálæti á Illuga sem gáfuðum og skemmtilegum penna og útvarpsmanni – þótt ég sé oftast ósammála honum um samfélagsmál. Líka núna.

Þessar tvær málsgreinar – 45 orð – fela í sér landlægar meinlokur um tvö af helstu pólitísku álitamálunum í landinu: Evrópusambandið og íslenskan sjávarútveg. Ég ætla að fjalla hér stuttlega um þá sýn á sjávarútveginn sem birtist í þessum orðum, en í framhjáhlaupi mætti nú kannski minna á þá augljósu sögulegu staðreynd að Evrópusambandið var ekki stofnað til að tryggja það sem Illugi myndi sennilega kalla félagslegt réttlæti heldur þvert á móti til að stuðla að vexti og viðgangi stórkapítalismans í Evrópu. Aðild að ESB myndi seint tryggja að „…íslensk alþýða myndi njóta arðsins af auðlindum sínum…“. (Það er raunar séríslenskt furðufyrirbrigði að halda að Evrópusambandið sé eitthvað „til vinstri“ en andstaðan við það eitthvað „til hægri“. Af hverju halda menn að samtök atvinnurekenda séu víðast hvar hörðustu talsmenn Evrópusambandsins? Til að tryggja alþýðunni félagslegt réttlæti?)

Þetta er þó ekki efni þessa greinastúfs heldur sú miðborgarmeinloka – að það séu bara „sægreifar“ sem njóti arðsins af auðlindum í sjónum en ekki „íslensk alþýða“. Þessum málflutningi fylgja gjarnan þau hughrif, ef það er þá ekki sagt beinum orðum, að útgerðarmenn séu upp til hópa blóðugir arðræningjar og samtök þeirra skipulagður bófaflokkur. Fyrir þann sem er alinn upp í námunda við allskonar útgerð og útgerðarmenn er þetta ótrúlega alhæfingasamur og yfirborðslegur málflutningur. Til að skýra málið fylgir hér dæmisaga af fjölskylduútgerð í minni heimabyggð:

Fyrir rétt um 16 árum tók fjölskyldan, sem gert hafði út einn bát um áratuga skeið, ákvörðun um að endurnýja bátinn og fjárfesta í nútímalegu fjölveiði- og frystiskipi. Þegar skrifað var undir samning um smíði skipsins 1998 áraði þokkalega í íslenskum sjávarútvegi og bjartsýni ríkjandi. Dollarinn sem var grundvöllur samningsins kostaði um 70 krónur. Þegar kom að því að leysa skipið út 2001 var dollarinn hins vegar í skammvinnum toppi á meira en 100 krónur vegna þess að gengi krónunnar hafði verið „flotað“ um þetta leyti. Nú voru góð ráð dýr og stefndi í að ekki fengist fjármagn til að leysa út skipið. Bankar hlupu hræddir inn í skel sína og á endanum veðsetti fjölskyldan eigur sínar og tók nýja eigendur með sér inn í útgerðina til að ná skipinu heim. Nú á fjölskyldan 52% í útgerðinni. Þrír bræður stýra henni – tveir á sjónum og einn í landi,

Við tóku nokkur ár þar sem útgerðin var í járnum og enginn öfundaðist út í afkomuna. Útgerðin átti ekki mikinn kvóta í hefðbundnum uppsjávartegundum, loðnu og síld, en sótti talsvert í kolmunna og seinna gulldeplu. Tímamót verða 2007 þegar útgerðin hóf, fyrst allra á Íslandi, veiðar á makríl í íslenskri lögsögu og árið eftir, 2008, ruddi útgerðin líka brautina með frystingu um borð til að hámarka aflaverðmætið. Útgerðin var sem sagt frumkvöðull í nýtingu makríls á Íslandsmiðum og hafði um margra ára skeið reynt að kveikja áhuga bæði stjórnvalda og Hafrannsóknastofnunar á málinu. Sömuleiðis hafði ómældum tíma og fjármunum verið varið í að þróa veiðar og vinnslu. Nú tala margir eins og makrílveiðarnar hafi dottið af himnum ofan og enginn hafi áunnið sér meiri rétt til að stunda þær en aðrir.

En því er ég að segja þessa sögu? Jú, hún lýsir í hnotskurn þeirri meinloku sem ég nefndi hér í byrjun. Hér eru á ferðinni vinnusamir og útsjónarsamir útgerðarmenn, sem sjálfir eru sinnar gæfu smiðir, og duglegir sjómenn. Það hafa skipst á skin og skúrir. Stundum tap og stundum gróði. Síðustu árin hafa verið góð og þá rísa upp raddirnar – háværastar í miðborg Reykjavíkur – um að að „íslensk alþýða“ njóti ekki auðlinda sinna í sjónum bara „sægreifarnir“. Er þetta rétt? Höldum aðeins áfram með söguna af útgerðinni í Eyjum:

Aflaverðmæti í fyrra var rúmlega 2,6 milljarðar króna. Af því skiluðu sér tæpar 700 milljónir beint í skatta og opinber gjöld frá útgerð og áhöfn, eða meira en fjórða hver króna af því sem aflaðist. Þessi upphæð samsvarar því sem kostar ríkið að reka Þjóðminjasafnið og þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þetta dugar líka til að reka Stofnun Árna Magnússonar og Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum. Þessi fjárhæð fer líka nærri því að dekka framlag ríkisins til Þjóðleikhússins. Bara veiðigjaldið er 174 milljónir og það dugar til að reka Íslenska dansflokkinn og Hús skáldsins að Gljúfrasteini. Þessi samjöfnuður er tekinn við ýmsa þætti úr menningargeiranum því það er gjarnan þaðan sem hæstu hrópin heyrast um „arðrán“ útgerðarinnar.

Þetta er sem sagt beinn samfélagslegur ávinningur af útgerð þessa eina báts og starfi 30 manna áhafnar hans í Vestmannaeyjum. Þá er ótalinn óbeinn ávinningur af ýmsu tagi og önnur afleidd störf sem þessi útgerð skapar í viðhaldi, veiðarfæragerð, uppskipun og svona mætti áfram telja. Hvernig er hægt að halda því fram af einhverju viti – að ekki sé nú talað um sanngirni – að engir nema „sægreifarnir“ njóti arðsins af auðlindinni?

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: