- Advertisement -

Sósíalistar og Flokkur fóksins – hver er munurinn?

Ég vona og er í rauninni viss um að Inga nái á þing og taki með sér 2-3 þingmenn aðra.

Gunnar Smári skrifar:

Mesti munurinn er auðvitað sá að Sósíalistaflokkurinn er stjórnmálaflokkur með virka grasrót sem tekur þátt í margháttuðu starfi, mótar stefnu flokksins og baráttu. Það er hins vegar enga stefnu að sjá á vef Flokks fólksins, sem er ekki bara sérstakt í samanburði við Sósíalistaflokkinn heldur í vestrænni stjórnmálasögu.

Annar munur er sá að Flokkur fólksins virðist telja að nóg sé að hin fátæku hafi rödd og að sú rödd reyni að biðla til valdastéttarinnar, reyna að milda hjarta hennar í von um að hún láti hin fátæku frá fleiri mola af borði sínu. Sósíalistaflokkurinn er hins vegar stjórnmálahreyfing sem stefnir að því að hrekja auðvaldið frá völdum, svo almenningur geti sjálfur ákveðið hverskonar samfélag hann vill byggja upp.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Flokkur fólksins er ásamt Pírötum sérstök tegund stjórnmálaflokka. Hvor um sig tekur að sér takmarkað hlutverk hefðbundinna stjórnmálahreyfinga; Flokkur fólksins að vera rödd hinna fátæku við borð valdsins en Píratar að vera aðhald við valdið. Hvorugur flokkurinn hefur hins vegar uppi plön um að breyta samfélaginu né hugmyndir um hvert það ætti að stefna og þá hvernig. Sósíalistaflokkurinn er hins vegar breið stjórnmálahreyfing með stefnu, markmið og ljósar baráttuaðferðir byggðar á 150 ára sögu frelsisbaráttu alþýðunnar.

Engar kannanir benda til að Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn sæki fylgi til svipaðra hópa. Það sem flokkarnir eiga sameiginlegt er að þeir ávarpa 1/3 hluta landsmanna sem hefur það verst og aðrir flokka sinna ekkert. Og báðir flokkar eiga erindi til næsta þriðjungs. Aðrir flokkar beina málflutningi sínum nær eingöngu að þeim 1/3 hluta kjósenda sem hefur það best. Sýnileg samkeppni um atkvæði er því miklu augljósari þar; Píratar, Samfylkingin, Framsókn, VG og Viðreisn eru t.d. meira og minna að reyna að aðlaga sinn málflutning að keimlíkum hópum. Þeir hópar sem þessir flokkar hins vegar ávarpa ekki eru miklu stærri og þar eru Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins eins og krækiber í Helvíti, vinna í svo stórum sal að þeir rekast svo til aldrei hvor á annan.

Flokkur fólksins er einskonar hollvinasamtök Ingu Sæland.

Þetta segi ég ekki bara út frá tilfinningu og reynslu. Kannanir sýna að það er nánast engin færsla á atkvæðum milli þessara tveggja flokka. Það á bæði við um þegar skoðað er hvað fólk sem segist styðja sósíalista kaus í síðustu kosningum og líka þegar skoðaðar eru fylgissveiflur flokkanna; það er ekki svo að þegar annar fer upp þá fari hinn niður, hvergi hægt að sjá slík tengsl.

Það er líka svo að ekkert af þeim fjölda fólks sem starfar innan Sósíalista á sér einhverjar rætur í Flokki fólksins. Að hluta til kann ástæðan að vera sú að það er ekki venjulegt flokksstarf í Flokki fólksins, sá flokkur er einskonar hollvinasamtök Ingu Sæland. En eftir sem áður eru engin sjáanlegt tengsl þarna á milli.

Hvaðan þessi hugmynd kemur, að Sósíalistar og Flokkur fólksins séu að slást um sömu atkvæði, er erfitt að segja til um. Líklega liggja ræturnar í forréttindablindu hinnar svokölluðu frjálslyndu miðju sem heldur að þeir flokkar sem snúa ekki að sér hljóti að vera meira of minna sama tóbakið.

Ég veit ekki hvað á að kalla svona stjórnmál, en sósíalisminn er skýr stefna.

Flokkur fólksins segist ætla að útrýma fátækt. Inga hefur sagt leiðina vera þá að hún sjálf verði brú milli hinna fátæku og ríku, nái að tala um fyrir hinum ríku svo þeir láti stærri sneið af kökunni til hinna fátæku. Ég veit ekki hvað á að kalla svona stjórnmál, en sósíalisminn er skýr stefna. Hún snýst um að hin fátæku og almenningur allur taki völdin af hinum ríku, auðvaldinu. Sósíalistaflokkurinn er eitt af baráttutækjunum sem notuð verða í þeirra baráttu. Það er stór munur á þessu tvennu, meiri en bara ólíkur tónn sem Inga vísar til.

Ég vona og er í rauninni viss um að Inga nái á þing og taki með sér 2-3 þingmenn aðra. Það er akkúrat engin ógn við Sósíalista ef Flokkur fólksins stækkar upp í kjörfylgið frá 2017. Þau atkvæði sem Inga nær til sín koma ekki frá Sósíalistum, líklega frá fólki sem annars myndi kjósa Miðflokkinn eða eitthvað ámóta, fólk sem kýs fólk sem segist ætla að hjálpa því en finnst framandi að kjósa hreyfingu sem ætlar að byggja upp völd almennings svo almenningur geti hjálpað sér sjálfur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: