Þetta tókst Rússum án aðkomu hagnaðardrifinna fyrirtækja
Gunnar Smári skrifar:
Bóluefnið sem þróað var í rannsóknarstofnuninni sem Bolsévikar þjóðnýttu 1919 og heyrir nú beint undir heilbrigðisráðuneytið í Rússlandi fær ekki alveg sömu umfjöllun og þau sem þróuð hafa verið af kapítalískum fyrirtækjum í vestrinu. Kannski vegna þess að umfjöllun um þetta bóluefni hækkar ekki hlutabréf í þessari stofnun, enda hún ekki á hlutabréfamarkaði. Kannski vegna þess að vestrænir fjölmiðlar eru farvegur linnulauss áróðurs um að hið opinbera sé vandinn og aldrei partur af lausninni. En þetta tókst Rússum sem sé, án aðkomu hagnaðardrifinna fyrirtækja.
Og það þrátt fyrir að á nýfrjálshyggjuárunum eftir hrun Sovétríkjanna hafi meira en helmingur menntafólks flúið landið vegna skipulags niðurbrots á þeim stofnunum sem fóstruðu öflugt vísindastarf áratugina á undan. Og Rússar vísa til gullaldar vísindastarfs undir Sovétinu með því að kalla bóluefnið Spútnik, eftir flaugunum sem færði Sovétmönnum forskot í kapphlaupinu um afrek í geimnum. Rússar hafa aftur sýnt að þeir geta verið á undan vestrinu í kapphlaupi byggðu á þekkingu og vísindum. Í vestrænum miðlum er áberandi efasemdir um að þetta bóluefni sé til, að það virki og að rétt hafi verið staðið að rannsóknum á því. Alveg eins og var fjallað um Spútnik eitt, tvö o.s.frv. fyrir sextíu árum eða svo. Sumt breytist seint.