- Advertisement -

55 starfa á skrifstofu borgarstjóra

„Undir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara heyra margar deildir sem sinna stoðþjónustu fyrir alla starfsemi Reykjavíkurborgar,“ segir meirihlutinn.

„Athygli vekur að á skrifstofu borgarstjóra starfi 55 starfsmenn,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

„Til samanburðar starfa 75 starfsmenn  á skrifstofu skóla- og frístundasviðs sem sér um leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili í borginni. Undir það svið heyra 62 leikskólar með 6.000 börn. Þá eru 39 frístundarheimili fyrir 4.100 börn, 24 félagsmiðstöðvar með 175.000 heimsóknir á ári og margt fleira. Undir sviðið heyra 4.300 starfsmenn og um er að ræða eitt stærsta og viðamesta svið Reykjavíkurborgar. Miðað við þennan umfangsmikla rekstur skóla- og frístundasviðs hlýtur að vakna sú spurning af hverju 75 starfsmenn geta sinnt þeim umfangsmikla rekstri á meðan 55 starfi á skrifstofu borgarstjóra. Þá vekur athygli í þessum samanburði að eingöngu 8 manns starfa á  íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar en fjórðungi fleiri eða 10 manns starfa á mannréttindaskrifstofu borgarinnar. Kostnaður við skrifstofu borgarstjóra og borgarritara hefur á undanförnum árum vaxið úr 157 í yfir 800 milljónir. Ekki er haldið verkbókhald á skrifstofunni en Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram tillögu þess efnis í borgarráði sem enn er óafgreidd,“ segir þar.

Fulltrúar meirihlutans leituðust við svara og bókuðu:

„Undir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara heyra margar deildir sem sinna stoðþjónustu fyrir alla starfsemi Reykjavíkurborgar, þar á meðal mannauðsdeild sem jafnframt sinnir starfsmatsverkefnum fyrir önnur sveitarfélög, upplýsingadeild sem sinnir upplýsingamiðlun þvert á borgarkerfið, deild tölfræði og greiningar og borgarskjalasafn. Jafnframt er á skrifstofunni haldið utan um verkefni á borð við Hverfið mitt, innleiðingu nýrrar persónuverndarlöggjafar og margt margt fleira.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: