- Advertisement -

Kjósendur hafna Vinstri grænum

Í Kraganum er flokkurinn nærri 6% og mun að óbreyttu þurrkast út úr sveitarstjórnum þar, þurfa að berjast fyrir að ná einum þingmanni úr því kjördæmi.

Gunnar Smári skrifar:

Afleit útkoma VG í borgarstjórnarkosningunum 2018 sýndi fyrst og fremst viðbrögð kjósenda við ákvörðun forystunnar að styðja Sjálfstæðisflokkinn til áframhaldandi valda og beygja sig undir stefnu hans í flestum málum innan ríkisstjórnar Katrínar. Fylgi VG í borginni var 8,3% árið 2014 en fékk niður í 4,6% 2018, nánast helmingaðist. Fylgi flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum hafði verið í þingkosningum mun meira; 15,7% árið 2007, 23,5% árið 2009, 13,9% í afhroðinu 2013, 19,3% árið 2016 og 20,2% árið 2017. Þótt fylgi í borgarstjórnarkosningum sé minna hjá VG en í þingkosningum þá er augljóst að fallið er umtalsvert 2018, í fyrstu kosningunum sem kjósendur fengu tækifæri til að segja álit sitt á ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur og forystunnar.

…erfitt að flokka VG til vinstri.

Nú sýnir MMR, samkvæmt Kjarnanum, að samanlagt fylgi í Reykjavíkurkjördæmunum og Kraganum er komið niður í 7,6%. Í kosningunum 2017 var fylgi VG í þesum kjördæmum 17,3% (Kjarninn segir 18%). Og það var meira í Reykjavík en í Kraganum, 20,2% á móti 13,6%. Ef við gerum ráð fyrir að hlutfallið þarna á milli sé enn það sama, getum við reiknað með að fylgi flokksins í Kraganum sé komið niður í 6,0% í Kraganum og í 8,9% í Reykjavíkurkjördæmunum.
Raunveruleikinn sem kosningar í Reykjavík sýndi, VG sem minnsta flokkinn í Reykjavík fyrir utan Flokk fólksins og Framsókn, viðrist því vera að festa sig í sessi. Í þessu fyrra höfuðvígi sínu getur flokkur vænst að fá undir 5% í borgarstjórnarkosningum og undir 9% í þingkosningum. Í Kraganum er flokkurinn nærri 6% og mun að óbreyttu þurrkast út úr sveitarstjórnum þar, þurfa að berjast fyrir að ná einum þingmanni úr því kjördæmi.

Sósíalistaflokkurinn fékk 6,4% í borgarstjórnarkosningunum . Hann mældist með 4,3% að meðaltali í könnunum MMR um þingkosningar, sem Kjarninn vitnar til. Miðað við fyrri kannanir um dreifingu atkvæða má reikna með að það merki að flokkurinn sé nærri 6% í Reykjavíkurkjördæmunum, hærri en það í Reykjavík norður. Sósíalistar eru ekki á þingi og birtast fólki því ekki sem jafn skýr valkostur til þingkosninga og þeir flokkar sem þar sitja, það gerist ekki fyrr en kosningabarátta hefst af afli. Í könnunum á landsvísu eru sósíalistar eftir sem áður að mælast með um 55% af fylgi VG, sem leiðir ríkisstjórn. Og miðað við það sem áætla má út frá könnunum eru sósíalistar enn stærri hlutfallslega gagnvart VG í Reykjavík. Hvort það sýni slælegt gengi VG eða góðan árangur sósíalista utan þess pólitíska sviðs sem meginstraumsmiðlar sýna, skal ósagt látið.

Á næstu mánuðum og fram að kosningum mun koma ljós hvort frumkvæðiskraftur sósíalista mun hafa betur en hin formlega staða VG (formaður ávallt með skjaldarmerkið á bak við sig, talandi sem valdið sjálft) og peningar frá almenningi (stóraukin framlög sem þingflokkarnir taka úr ríkissjóði). Ég er náttúrlega ekki hlutlaus, en ég spái að forysta vinstrisins muni flytjast til sósíalista innan skamms, enda orðið erfitt að flokka VG til vinstri.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: