Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna húsnæðiskreppunnar. Þó fyrr hefði verið, kunna eflaust einhverjir að segja.
Sífellt fleiri enda á hrakhólum
Í greinargerðinni má sjá þetta:
„Ástandið á leigumarkaði hefur alvarlegar afleiðingar en rannsóknir hafa sýnt að leigjendur eru líklegri til að eiga í fjárhagsvandræðum og börn leigjenda líklegri til að líða skort. Í dag búa um 50.000 manns á ótryggum og dýrum leigumarkaði og sífellt fleiri enda á hrakhólum. Þannig eru helstu fórnarlömb húsnæðisástandsins annars vegar fátækasti hluti landsmanna og hins vegar unga fólkið sem nær ekki að kaupa. Auk þess á sá hluti almennings sem kom einna verst út úr hruninu, og lenti í að missa húsnæði sitt, ekki auðveldlega afturkvæmt á húsnæðismarkað. Aðrir hópar hagnast síðan á neyð þeirra sem koma ekki þaki yfir höfuðið.“
Tryggja verður réttindi leigjenda
Þá segir þingflokkur Samfylkingarinnar:
„Framboði á leiguhúsnæði er verulega ábótavant, það verður að byggja meira og hagkvæmar til að halda aftur af hækkun leiguverðs – ríkið verður að stíga inn í og tryggja fleiri stofnframlög til uppbyggingar hagkvæmra leiguíbúða. Tryggja verður réttindi leigjenda og þeirra sem eiga húsnæði og gera fólki sem getur staðið við afborganir mögulegt að kaupa sína fyrstu íbúð. Mikilvægt er að stjórnvöld auki fé til stofnframlaga til að hraða uppbyggingu í nýja almenna íbúðakerfinu.“