- Advertisement -

5 staðreyndavillur um maíspokann

Að undanförnu hefur borið á gagnrýni á maíspoka.

Að undanförnu hefur borið á gagnrýni á maíspoka. Líkt og oft gerist þegar nýjar vörur koma á markað, þá byggir þessi gagnrýni á vanþekkingu á framleiðslu, notkun og áhrifum maíspokans.

Hér að neðan má finna upplýsingar sem varpa ljósi á nokkrar staðreyndavillur sem fram hafa komið.

Staðreyndavilla 1: Sótspor maíspoka er meira en plastpoka.

Ítrekað hefur verið bent á breska rannsókn sem sýnir fram á að sótspor maíspoka er hærra en plastpoka. Maíspokarnir sem notaðir voru í rannsókninni voru á engan hátt sambærilegir við þá poka sem Íslenska Gámafélagið flytur inn og notaðir eru hér á landi, t.d. hvað varðar stærð, þyngd og gerð. Hér á landi eru maíspokarnir léttari en plastpokarnir, sem gerir það að verkum að sótsporið vegna flutninga verður minna ef fjarlægðin er sú sama. Að auki var rannsóknin gölluð að því leiti að bornir voru saman þykkir maíspokar og örþunnir plastpokar.

Þá má einnig benda á að ef miðað er við að einstaklingur noti 100 maíspoka á ári, þá er maíspokinn einungis ábyrgur fyrir minna en 0,02% af sótspori þess einstaklings.

 

Staðreyndavilla 2: Framleiðsla maíspoka er ógn við fæðuöryggi.

Nefnt hefur verið að við framleiðslu á maíspokum sé notað hráefni sem annars hefði verið nýtt í matvæli, og að stór landsvæði séu tekinn undir ræktun á maís til framleiðslu pokanna í stað þess að rækta maís til manneldis. Staðreyndin er aftur á móti sú að pokarnir sem Íslenska Gámafélagið flytur inn eru framleiddir úr þeim hluta framleiðslunnar sem ekki nýtist sem matvæli og því má segja að verið sé að fullnýta uppskeruna. Geta má að mun hærra verð fæst fyrir maís til matvælavinnslu en framleiðslu á pokum.

Þá má einnig nýta akrana aftur og aftur til ræktunar sem er annað en má segja um olíulindirnar sem notaðar eru til plastframleiðslu.
Að auki má nefna að það er ekki skortur á matvælum sem er vandamálið í heiminum í dag, vandamálið er miklu frekar skortur á dreifingu matvæla. Staðreyndin er sú að á milli 30 og 40% af framleiddum matvælum er hent áður en þau komast til neytenda.

Staðreyndavilla 3: Maíspokar henta illa til jarðgerðar.

Maíspokinn hefur verið notaður hér á landi í jarðgerð frá því snemma árs 2008 með mjög góðum árangri og án allra vandamála.

Staðreyndavilla 4: Burðargeta maíspokans er lítil.

Maís burðarpokar sem seldir eru á Íslandi hafa 26 kg burðarþol, sem samsvarar 26 eins lítra mjólkurfernum. Það er því ekki styrkurinn sem er takamarkandi heldur rúmmálið.

Staðreyndavilla 5: Plastpokar eru lítið vandamál í hafi miðað við annað plast, t.d. plast í snyrtivörum.

 

Þessi staðreyndavilla er alvarleg, sérstaklega fyrir þjóð sem á mikla hagsmuni af því að landslag og haf haldist hrein. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á mikið magn plastpoka í hafi. Meðal annars sýndi rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna fram á að yfir 90% plasts í sjó er af völdum plastpoka. Pokarnir brotna sífellt niður í smærri einingar og verða hættulegri heilsu dýra og manna. Þó að smærri plasteiningar, s.s. plast í snyrtivörum, sé vissulega hættulegt þá er umfang vandamála vegna plastpoka mun stærra þegar til lengri tíma er litið.

Ljóst er að fjölnota innkaupapokar eru betri kostur en bæði plast- og maíspokar. En ef fjölnotapokarnir gleymast eða rúmmál þeirra dugar ekki, þá er næst besti kosturinn klárlega maíspoki.

gamur.is


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: