- Advertisement -

5.000 mál á biðlista lögreglunnar

Það er réttur bæði brotaþola og geranda að mál þeirra séu unnin hratt og að niðurstaðan komi sem fyrst.

„Samkvæmt upplýsingum mínum bíða um fimm þúsund mál rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Fjölnir Sæmundsson, varaþingmaður VG, á Alþingi í gær.

„Það þýðir að þúsundir manna eru að bíða eftir lausn í sínum málum. Bara í kynferðisbrotadeild eru 200 mál sem bíða. Lögreglan er ein af grunnstoðum samfélagsins og allir íbúar landsins eiga að geta fengið þjónustu lögreglu hvenær sem er sólarhringsins með stuttum fyrirvara. Þannig tryggjum við öryggi og vellíðan,“ sagði hann.

Fjölnir sagði að það væri réttur bæði brotaþola og geranda að mál þeirra séu unnin hratt og að niðurstaðan komi sem fyrst. „Lögreglan sjálf getur auðvitað ekki kvartað mikið, hún getur ekki auglýst fámenni sitt. Hún getur ekki viðurkennt að hún búi við getuleysi á einhverjum sviðum. Með því væri hún beinlínis að draga úr öryggiskennd borgaranna. Hér þarf því Alþingi að grípa inn í.“

Fjölnir rakti nokkrar staðreyndir, meðal annars þessar: „Lögreglumönnum á Íslandi hefur fækkað mikið undanfarna áratugi á meðan verkefnum þeirra og Íslendingum og ferðamönnum hefur fjölgað á sama tíma. Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað um 200 prósent undanfarinn áratug. Bifreiðum á götunum hefur fjölgað um 50 prósent. Á sama tíma hefur lögreglumönnum á Íslandi fækkað um 11 prósent. Samkvæmt löggæsluáætlun sem nær til ársins 2012 átti æskilegur fjöldi lögreglumanna það ár að vera 804. Í dag eru starfandi 660 lögreglumenn á landinu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: