Mannlíf

Flöskuna var hann með í beltinu

By Ritstjórn

July 14, 2020

Sveinseyrarpóstur Sigurðar G. Tómassonar:

Gvendur vinur minn kom ásamt skipsfélaga inn á Kaffi Höll í Austurstræti. Hann hugðist fá sér brennivín í vatni. Flöskuna var hann með í beltinu. En þegar hann var rukkaður um 20 krónur fyrir vatnsglasið var honum nóg boðið. Hann tók leigubíl upp að Rauðavatni og blandaði sjússinn í tóma kókflösku sem bílstjórinn lánaði honum.

Hið hátíðlega bull dagsins: ….úrskurðurinn sé haldinn annmörkum. Hér mun átt við að annmarkar séu á úrskurðinum.

Samband okkar feðga, milli mín og pabba, var alla tíð náið. Mér er eðlisbundið að krefjast ekki fullkomnunar af neinum og láta hugsanlegar misgerðir yfir mig ganga. Pabbi var okkur systkinunum hlýr og hjálpsamur alla ævi sína, þegar allt var í lagi. Engir erfiðleikar hindruðu hann við aðstoða okkur á alla lund. Hjálpsemin takmarkaðist ekki við okkur, barnabörn og önnur skyldmenni. Systkini mín hafa sömu sögu að segja. Sjálfur lét ég ekki breyskleika hans breyta viðmóti mínu til hans. Ég horfði þó heldur ekki fram hjá þeim og setti honum stundum skilyrði. En ég heimsótti hann á Bláa bandið og Silungapoll. Það er erfitt fullorðnum börnum alkóhólista að sættast við ástina á veiku foreldri.