Það að draga ekki út sérstaklega stöðu mála hjá þingkonum þarfnast skýringar.
Haukur Arnþórsson skrifar:
Ég vek athygli á þessari könnun á vinnustaðamenningu Alþingis sem var birt í dag. Ég skrifaði um kynbundið áreiti og ofbeldi gagnvart þingkonum í bók minni Um Alþingi: Hver kennir kennaranum? og mun skoða þetta vel.
Þessi könnun er um Alþingi sem vinnustað og eru starfsmenn þingsins og starfsfólk þingflokka spurðir, auk þingmanna. Ekki er flokkað niður á kyn þingmanna sérstaklega þannig að tölur um kynbundið áreiti og ofbeldi gagnvart þingkonum er ekki gefið upp. Könnun mín í fyrra tók aðeins til þingkvenna. Það er því ekki hægt að bera niðurstöðurnar saman nema til að reikna út hver staða þingkvenna er samkvæmt þessari nýju könnun. Þá reiknivinnu mun ég gera.
Mín rannsókn tók til þingmannsferils þingkvennanna, en þessi rannsókn snýst mest um 6 síðustu mánuði á Alþingi sem vinnustað. Það þrengir málið töluvert.
Það er sem betur fer alveg ljóst að starfsmenn Alþingis og þingflokkanna, auk þingkarla – verða ekki fyrir mjög miklu ofbeldi eða áreiti – þannig að meðaltölin eru lægri en þau voru hjá mér. Ég þekki það sem karl sem vann hjá Alþingi í 16 ár að karlkyns starfsmenn verða sjaldan eða ekki fyrir ofbeldi. En engu að síður eru þessi meðaltöl sláandi há.
Ég mun skrifa á opinberum vettvangi um þetta mál og greina það betur – og sérstaklega að reyna að finna út tölurnar fyrir áreiti og ofbeldi gagnvart þingkonum – því það er þar sem skóinn kreppir – og rannsókn Evrópuþingsins og Alþjóðaþingmannasambandsins og mín snérust um konur í stjórnmálum.
Ég ætla ekki að segja að könnuninni hafi verið ætlað að gefa fegraða mynd af stöðu ofbeldismála á Alþingi – en það að draga ekki út sérstaklega stöðu mála hjá þingkonum þarfnast skýringar.