„Hvað er í gangi á barna- og unglingageðdeild Landspítalans? Þarna eru 500 börn í þjónustu og 100 börn á biðlista eftir að komast í meðferð; börn sem þurfa að komast í meðferð vegna fjölbreytts vanda, t.d. alvarlegra geð- og þroskaraskana. Á BUGL er 45% starfsmannavelta á ári meðal fagfólks,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, á Alþingi í dag.
„Þarna eru undir fjölskyldur og börn sem þurfa stöðugleika og aðstoð strax og ekkert barn á að vera þarna á biðlista. Það álag sem fjölskyldur verða fyrir vegna þessara veikinda barna er svakalegt og það vita bara þeir sem reynt hafa. Álagið er svo mikið á starfsmenn á BUGL að þeir eru að sligast,“ sagði hann og bætti við: „Og hvað er hæstvirtur ráðherra að gera í því?“
„Við höfum aukið fjármagn umtalsvert inn í heilsugæsluna um allt land til að bæta geðheilbrigðisþjónustu á fyrsta stigi, auka möguleika á því að börn og ungmenni geti leitað til sálfræðinga strax á heilsugæslunni. Geðteymi hafa verið sett á laggirnar um allt land og við ljúkum væntanlega við mönnun á þeim í lok þessa árs,“ sagði Svandís Svavarsdóttir meðal annars í svari sínu.
„Í samræmi við þetta og á grundvelli þeirrar sýnar höfum við í ráðherratíð minni í heilbrigðisráðuneytinu aukið fjármagn til geðheilbrigðismála almennt. Við höfum aukið fjármagn umtalsvert inn í heilsugæsluna um allt land til að bæta geðheilbrigðisþjónustu á fyrsta stigi, auka möguleika á því að börn og ungmenni geti leitað til sálfræðinga strax á heilsugæslunni. Geðteymi hafa verið sett á laggirnar um allt land og við ljúkum væntanlega við mönnun á þeim í lok þessa árs.“