„Alþingi samþykkir á sama deginum annars vegar fjármálaáætlun og hins vegar samgönguáætlun. Milli þessara áætlana fyrir næstu 3 ár er 4,5 milljarða gat.“
Þetta segir Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, í Mogga dagsins, um framkvæmdir á Dynjandisheiði. Í Moggafréttinni segir Sigríður ástæðuna fyrir því að Vegagerðin hafi hætt við áform sín um að flýta framkvæmdinni vera að Alþingi hafi enn á ný samþykkt ófjármagnaða samgönguáætlun.
Þarna er sem raunveruleikinn stangist illa á við raup samgönguráðherrans, Sigurðar Inga.
Sigríður telur að Vegagerðin þori ekki að halda þessu til streitu því einhvers staðar verði skorið niður. Sigríður segist skilja Vegagerðina enda geti stofnunin ekki farið fram úr þeim ramma sem henni er settur í fjárlögum.
„Ég vil að ráðuneytið gefi út þau fyrirmæli að ekki verði skorið niður í þessari framkvæmd og tryggi að fjármagnið sem búið er að setja í þetta standi. Ef það er gert þá ætti að vera boðið út núna og þetta klárast á næstu 3 árum. Annars óttumst við að þetta fari allavega inn í árið 2025,“ segir Sigríður og bætir við að hver mánuður skipti máli.
Í fréttinni segir einnig: „Hún bendir á að á meðan stofnæðin sem tengir saman sunnan- og norðanverða Vestfirði sé ónýt, sé verið að malbika aðreinar að sveitabæjum á Suðurlandi.
„Það er blússandi sigling í atvinnulífinu á Vestfjörðum og umtalsverð verðmætasköpun á sér stað á svæðinu en samgöngurnar standa svæðinu fyrir þrifum.“ Með auknu fiskeldi má sjá fyrir að flutningar og samgangur verður meiri. Í dag tekur aksturinn 2,5 klukkustundir að sumri en á veturna er vegurinn oftast ófær og þá er ferðalagið eitt þúsund kílómetrar fram og til baka.“