Ágúst Ólafur Ágústsson skrifaði:
Strax eftir helgi mun fjármálaráðherra mæla fyrir auknum útgjöldum í fjáraukalögum upp á 20 milljarða kr. fyrir núgildandi ár (15 ma að teknu tilliti til varasjóðs). Í fjáraukalögum, ólíkt fjárlögum, má eingöngu bregðast við „tímabundnum“, „ófyrirséðum“ og „óhjákvæmilegum“ útgjöldum. Við lestur minn á fjáraukafrumvarpinu rakst ég á nokkra áhugaverða punkta:
1. Afkoma ríkisins fyrir núgildandi ár átti að vera 29 milljarðar kr. í plús en verður tæpir 15 milljarðar kr. í mínus. Því er um að ræða rúmlega 43 milljarða kr. sveiflu á þessu ári til hins verra. Auðvitað er margt sem ekki er hægt að sjá fyrir en kannski eru orð okkar í fyrra sem sögðu að forsendur núgildandi fjárlaga væru byggðar á „óskhyggju og óraunsæi“ að rætast.
2. „Miðflokksálag“ eða eigum við einfaldlega að kalla þetta „Orkupakkann“?:
En í fjáraukalögum er lagt til að Alþingi fái 40 m.kr. „vegna mikillar viðveru starfsmanna Alþingis umfram almenna starfsskyldu.“ Og áfram segir í greinagerð: „Á vordögum var óvenju mikið annríki á Alþingi sem kallaði á mjög mikla viðveru starfsmanna skrifstofunnar umfram almenna vinnuskyldu. Alla jafna er mikið álag á vordögum þingsins og gert ráð fyrir því í áætlunum skrifstofunnar en á yfirstandandi ári var það óvenju mikið og varði vikum saman.“
„Ástæðurnar voru málþóf í þingsalnum og mörg, umfangsmikil og þung mál sem sinna þurfti á nefndasviði. Yfirvinna þeirra sem vinna í tengslum við þingsalinn var tvöfalt meiri en vanalegt er og álíka mikið hjá nefndasviði. Þá var ekki nægur fjöldi starfsmanna til að sinna allri þessari vinnu án þess að kæmi til hvíldartímabrota sem einnig skapaði aukinn kostnað,“ eins og segir í greinargerð frumvarpsins.
3. „Landsréttarmálið (en þó eingöngu lítill hluti þessa máls)“:
Gerð er tillaga um 20,3 m.kr. hækkun til að mæta launakostnaði þriggja skipaðra landsréttardómara frá því í ágúst vegna áhrifa dóms Mannréttindadómstóls Evrópu um að fjórir dómarar séu ekki löglegir til að dæma við réttinn. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina hvað þetta varðar er rúmar 28 milljónir kr.
4. Um 5,4 milljarður kr. fara úr ríkissjóði vegna dóms Landsréttar (sem mamma Ingu Sælands vann) um ólögmæti afturvirkrar skerðingar á greiðslum til ellilífeyrisþega.
5. Um 7,6 milljarður kr. er vegna aukins atvinnuleysi en sérhvert aukið prósentustig í atvinnuleysi kostar um 6,5 milljarð kr. Mín tilfinning er að atvinnuleysi er því miður á uppleið en forsendur fjárlagafrumvarpsins sem við erum núna að kljást um í þingsalnum gerir ráð fyrir mjög lítilli breytingu á atvinnuleysi á næsta ári.
Aftur finnst manni að óskhyggja og óraunsæi ráði ríkjum hjá ríkisstjórninni. Fjöldi atvinnulausra er nú um 6.800 manns en var 4.300 í fyrra. Fjölgunin milli ára er 2.500 manns en það jafngildir öllum vinnumarkaðinum á Ísafirði svo dæmi sé tekið.
6. Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta fær 2,5 milljarð kr. vegna meiri kostnaðar en gert var ráð fyrir. Rekstrarvandi Landspítalans lækkar við þetta í 4.000 m.kr. rekstrarhalla sem auðvitað er enn mikið áhyggjuefni. Oft virðist eins og stjórnvöld viti að fjárlög dugi ekki til en slíkt á auðvitað ekki að viðgangast. Og við þurfum að muna að fjáraukinn má bara innihalda útgjöld sem eru „ófyrirséð“.
7. Áfram lækka vaxtabæturnar en vegna ótrúlega mikilla skerðinga fækkar ætíð þeim sem þær njóta. Í fjárlögum næsta árs eiga eingöngu 3,4 milljarðar kr. að renna til að vaxtabóta en síðast þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn vörðum við um 16 milljörðum kr. til vaxtabóta. Ólíkt aðhafast flokkarnir þegar þeir komast í ríkisstjórn. Nú fá rúmlega helmingi færri fjölskyldur vaxtabætur en vegna ársins 2010.
8. Lagt er til að fjárheimild hækki um 10 m.kr. vegna kostnaðar við heimsókn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.
Og svona mætti lengi telja áfram. Góða helgi.