Greinar

425 þúsund á mánuði er lágmark

By Miðjan

January 02, 2019

Hinn ötuli baráttumaður, Björgvin Guðmundsson, fagnar vali fréttastofu Stöðvar 2 á manni ársins, Sólveigu Önnu Jónsdóttur.

„Hún er einlægur og sannur verkalýðsleiðtogi. Hún hefur náið samráð og samstarf við grasrótina, hið óbreytta verkafólk. Hún sagði í viðtali við Stöð 2, að krafa Eflingar og verkafólks um 425 þús kr. laun fyrir skatt á mánuði eftir 3 ár væri lágmarkskrafa og ófrávíkjanleg,“ skrifar Björgvin.

„Hún spurði flokksleiðtogana hvort þeir gætu stutt þessa kröfu. Logi Einarsson svaraði því játandi. Hann sagði, að krafan væri sanngjörn. En hinir svöruðu ekki þessari spurningu. KJ svaraði henni ekki,“ skrifar Björgvin.

Hann rifjar upp að kröfur verkalýðsfélaganna geri ráð fyrir að launin hækki um 14% í byrjun. „Það er minna en fyrsta hækkun 2015 en sú hækkun var 14,5%. Þá var eins og nú sagt, að kröfurnar væru svo miklar að óðaverðbólga mundi skella á ef kröfurnar yrðu samþykktar. Þær voru samþykktar og gengu í gildi. Engin verðbólga skall á.“

„Hræðsluáróðurinn er enn meiri nú en áður.“

Björgvin minnir á: „Nú eru samningar verkalýðsfélaganna á almennum markaði runnir út. Krafa verkalýðsfélaganna er sanngjörn. 425 þús. eftir þrjú ár þýðir rúmar 300 þús. kr. eftir skatt á mánuði. Það er ekki unnt að lifa mannsæmandi lífi á lægri upphæð. Verkafólk á ekki að selja vinnu sína á útsöluverði. Sólveig Anna sagði, að ekki tæki langan tíma að undirbúa aðgerðir.“