Þriðjungur dómara Landsréttar er óstarfhæfur í boði ríkisstjórnarinnar.
„Landsréttur lá niðri í heila viku, allur sem einn. Hvað þýðir það? Hvaða mál eru það sem dragast vegna þessa ástands í boði ríkisstjórnarinnar? Hvaða hagsmunir eru það sem eru undir? Hvaða mál eru þarna?“
Þetta er brot ú ræðu Helgu Völu Helgadóttur á Alþingi, um stöðuna vegna dóms Mannréttindadómstólsins.
Helga Vala hélt áfram: „Við erum að tala um líkamsárásarmál, kynferðisofbeldismál, nálgunarbann, kynferðisbrot gegn barni, barnaverndarmál, forsjármál, forsjársviptingarmál, nauðungarvistunarmál, vistun barna utan heimilis o.s.frv. en líka alls konar mál sem varða peninga sem hafa óskaplega litlar tilfinningar og geta þess vegna alveg beðið. En þetta, herra forseti, eru málin sem núna mega bíða í boði ríkisstjórnarinnar. Málahalinn er ófyrirséður. Þriðjungur dómara Landsréttar er óstarfhæfur í boði ríkisstjórnarinnar. Það eru 82 mál sem fallið hafa á síðustu 15 mánuðum, bara hjá ríkissaksóknara, sem nú er óvissa með framhaldið á. Það eru 42 kynferðisofbeldismál.“
Helga Vala sagði Katrínu Jakobsdóttur hafa látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að hún hafi ekki verið viðbúin þeirri niðurstöðu sem okkur barst frá Mannréttindadómstóli Evrópu í síðustu viku. „Ég vil lýsa því yfir að ég var ekki viðbúin þessum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar, enda voru margir mánuðir sem liðu frá því að málið var sent til Mannréttindadómstólsins og margar vikur sem liðu frá því að okkur var tjáð að 12. mars 2019 kæmi niðurstaða dómstóls í þessu máli,“ sagði Helga Vala.
„Mig langar einlæglega að biðja ríkisstjórnina um að reyna að minnka tjónið sem við stöndum nú frammi fyrir vegna embættisgerða Sigríðar Á. Andersen í starfi dómsmálaráðherra og meta hagsmunina af því að byggja upp Landsrétt að nýju í stað þess að halda þessari óvissu áfram með áfrýjun til yfirdeildar,“ sagði Helga Vala.
Hér má lesa ræðu hennar í heild.