Nú þegar útsölur eru komnar í fullan gang er tilvalið að benda neytendum á nokkra hluti sem gott er að hafa í huga. Verslanir þurfa t.d að geta sannað að vara hafi í raun verið seld á því verði sem gefið er upp sem fyrra verð og eftir sex vikur á útsöluverði telst útsöluverðið almennt verð.
Á vef Neytendasamtakanna má sjá ýmsar ábendingar til neytenda varðandi útsölur og sömuleiðis á vef Neytendastofu sem hefur eftirlit með reglum um útsölur. Í þeim segir t.d að það skuli vera skýrt hvaða vörur séu á útsölu og hverjar ekki og að seljandi þurfi að geta sýnt fram á það að vara hafi í raun verið seld á því verði sem gefið er upp sem fyrra verð. Það sé því ekki leyfilegt að hækka verð við upphaf útsölu svo afsláttinn virðist meiri. Sé vara svo á útsölu í meira en sex vikur telst það verð almennt verð og fari hún á útsölu aftur þurfi verð að lækka aftur.
Þrátt fyrir að það séu til verklagsreglur um skilarétt, inneignarnótur og gjafabréf eru þær eingöngu leiðbeinandi og ekki mjög þekktar meðal verslana sem oft hafa sínar eigin skilareglur. Þá er verslunum t.d ekki skylt að taka til sín ógallaðar vörur. Verslanir taka heldur yfirleitt ekki við vörum aftur sem keyptar hafa verið á útsölu. Ef útsöluvara er gölluð ber verslun þó að taka við henni aftur ef neytandi vissi ekki um galla vörunnar fyrirfram, en stundum eru gallaðar vörur seldar með afslætti. Sé slíkt gert ber að taka það skýrt fram við neytanda að um gallaða vöru sé að ræða og hann veit þá af því og getur ekki skilað vörunni aftur.
Á vef Neytendasamtakanna segir að oft flæki það málin þegar útsölur byrji strax eftir jól og einhverjir eigi eftir að skila eða skipta jólagjöfum. Samkvæmt áðurnefndum verklagsreglum sé það svo að ef vara er keypt skömmu áður en útsalan hefst eða innan við 14 daga fyrir upphaf útsölunnar, eigi við skipti að miða við verð vörunnar á útsölunni en ekki upphaflegt verð nema seljandi samþykki. Þó er rétt að hafa í huga að kaupandinn á rétt á inneignarnótu sem miðar við upprunalegt verð vörunnar. Inneignarnótu sem gefin er út innan 14 daga fyrir útsölu eða meðan útsala stendur yfir er ekki heimilt að nota á útsölu nema með samþykki seljanda. Raunar virðist það vera algengt að notkun inneignarnóta á útsölum sé alfarið bönnuð. Í sumum tilvikum getur samt verið hagkvæmara að þiggja inneignarnótuna og koma aftur í verslunina þegar útsölunni er lokið. Vilji neytandi ákveðna vöru á útsölu og óttast að hún verði ekki til þegar útsölu lýkur er ráð að reyna að semja um að fá að nota inneignarnótuna og borga þá upphaflegt verð fyrir vöruna áður en hún fór útsölu.