Hvers vegna á ríkissjóður að aðstoða eigendur tryggingafélaga?
Því miður er engin stjórnarandstaða á þingi, engin nógu sterk til að verjast ráðagerðum ríkisstjórnarinnar um að nýta yfirstandandi áföll til að færa fyrirtækja- og fjármagnseigendum fé í nafni fordæmalausrar stöðu (sem er orðfærið sem er notað) án nokkurra krafna um samfélagslega ábyrgð. Það sást í gær þegar allur þingheimur samþykkti greiðslufrest á staðgreiðslusköttum og tryggingargjaldi til allra fyrirtækja, án tillits til þess hvernig áföllin koma við þau, og án krafna um að eigendur þeirra neiti sér um að draga sér fé upp úr rekstrinum í formi arðs. Slíkt hefði verið sjálfsögð krafa. Hvers vegna á ríkissjóður að aðstoða eigendur tryggingafélaga, sem undanfarin ár hafa kerfisbundið veikt þessi félög með því að greiða til sín með arðgreiðslum svo til allan hagnað félaganna? Og hvers vegna eru ekki gerðar þær kröfur að þeim fyrirtækjum sem þiggja greiðslufrestinn sé óheimilt að kaupa hlutafé í sjálfu sér? Reynslan af stuðningi Obama-stjórnarinnar í Bandaríkjunum við fjármálakerfið og stórfyrirtæki eftir Hrun varð sú að allra stærstu eigendur allra stærstu fyrirtækjanna nýttu aðstoðina til að þrýsta upp hlutabréfaverði til að auka enn við auð sinn og völd. Með því að gera engar kröfur á fyrirtækin er ríkið í reynd að samþykkja allt sem eigendur fyrirtækjanna hafa gert og muni gera, að allar ákvarðanir þeirra séu sjálfsagðar og réttar. Sem þær sannarlega eru ekki. Eins og Íslendingar þekkja, jafnvel og hver önnur þjóð, þá hafa stærstu eigendur allra stærstu fyrirtækjanna skaðað samfélagið með ákvörðunum sínum, sem ætíð snúast fyrst og síðast um þeirra eigin hag.
Það er eitt að Sjálfstæðisflokkurinn vilji gefa stærstu eigendum stærstu fyrirtækjanna frítt spil. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur auðvaldsins, og þótt hann þykist fyrir kosningar bera hag aldraðra fyrir brjósti, þá sjá allir landsmenn í gegnum þennan flokk, að hann er harðsvíruð hagsmunagæsla fyrir ríkustu og valdamestu fjölskyldur landsins. Innan Framsóknarflokksins ættu hins vegar enn að vera til leyfar af félagshyggju samvinnuhreyfingarinnar, þótt forysta flokksins hafi á síðari árum frekar kosið að þjóna þeim sem sölsuðu undir sig eignir hreyfingarinnar en þann sósíalíska anda sem kveikti þá hreyfingu. Um VG er ekkert hægt að segja. Forysta þess flokks framdi stærstu svik íslenskra stjórnmálasögu með því að segja við kjósendur fyrir kosningar að hún væri eini valkosturinn gegn Sjálfstæðisflokknum, en bera síðan Sjálfstæðisflokkinn til valda strax eftir kosningar. Nú situr þessi forysta eftir sem fundarstjórar þings og ríkisstjórnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ræður í reynd öllu. Það afhjúpast í yfirstandandi áföllum. Á árum áður var forsætisráðherra ráðherra efnahagsmála en í dag er forsætisráðherra eins og PR-fulltrúi efnahags- og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem mótar stefnu stjórnarinnar þegar allt leikur í lyndi en tekur nánast öll völd þegar á bjátar.
Stjórnarandstöðuflokkarnir skiptast í tvær fylkingar. Annars vegar er hægri armurinn, Miðflokkur, Viðreisn og Flokkur fólksins, sem gera engan ágreining við áætlanir ríkisstjórnarinnar, vegna þess að þessi flokkar eru þeim sammála. Það er helst að vænta gagnrýni úr þessari átt að ekki sé nógu langt gengið, að ríkið eigi að færa stærstu eigendur stærstu fyrirtækjanna meira fé og meiri völd. Hins vegar er miðjan, Samfylkingin og Píratar, þar sem forystan er uppteknari af því að sýna sig stjórntæka fyrir hinum flokkunum, það er að þau séu til í að taka þátt í svona aðgerðum möglunarlaust, sanna fyrir þingheimi að ef Sjálfstæðisflokkurinn tæki þau með í næstu stjórn sína yrði enginn þingmanna þessara flokka með neitt vesen þegar mikið lægi við.
Við erum því með ríkisstjórn, þar sem engar varnir eru gegn ráðagerðum auðvaldsins um að nýta yfirstandandi áföll fyrst og fremst til að auka auð og völd hinna allra ríkustu. Og með þing, sem er heldur engin fyrirstaða. Það er ástæðan fyrir að í fyrstu skrefum ríkisstjórnarinnar eru engar aðgerðir til að mæta fyrirsjáanlegum fjárhagserfiðleikum almennings og sérstaklega þeim hluta hans sem á minnst, skuldar mest og hefur lægstu tekjurnar. Meira að segja Trump-ríkisstjórnin fellir niður vexti á námslánum, vitandi að hún verður að bjóða almenningi eitthvað um leið og hún dælir fé í einkafyrirtæki. Harðsvíruð hægristjórn Ástralíu eru með aðgerðir sem beint er að öryrkjum, ríkisstjórn Ítalíu fella niður afborganir af lánum almennings o.s.frv. Þrátt fyrir að hjálparsamtök hafi hætt matargjöfum á Íslandi hreyfir ríkisstjórn eða Alþingi ekki litla putta. Allar aðgerðir eru til að styðja hin ríku og valdamiklu, ekkert til aðstoðar við hin fátæku og valdalausu. Ástæðan? Ísland er það land í heiminu sem er verst leikið af öfgatrú nýfrjálshyggjunnar um að við berum aðeins skylda til að aðstoða hina betur settu en engar skyldur gagnvart hinum verst settu.
Í frumvarpi Bjarna Benediktssonar, sem samþykkt var í gær, voru engar kröfur gerðar gegn loforði um aðstoð til fyrirtækja- og fjármagnseigenda. Og svo er heldur ekki í frumvörpum Ásmundar Einars Daðasonar, sem hann lagði fram í gærkvöldi. Þar fá öll fyrirtæki bætur vegna sóttkvíar starfsmanna sinna, óháð því hvernig eigendur þeirra hafa umgengist samfélagslega ábyrgð. Eigendur sem hafa skrælt fyrirtækin að innan fá sömu bætur og þeir eigendur sem eiga sjóði til að mæta niðursveiflu og áföllum. Og ekkert er gert til að fá útskorið hver ábyrgð launagreiðenda er. Með samþykkt frumvarpsins mun Alþingi í reynd hafna því að launagreiðanda beri að borga starfsfólki laun sem ekki kemst í vinnu vegna sóttkvíar, nokkuð sem Alþýðusambandið hefur sagt að sé fullkomlega á ábyrgð launagreiðenda.
Það sama á við um hitt frumvarpið. Það auðveldar öllum fyrirtækjum að fækka starfsfólki, án tillits til þess hversu hart áföllin bitna á viðkomandi atvinnugrein og án tillits til þess hversu illa eigendurnir hafi leikið sjóði fyrirtækisins á undanförnum árum.
Nú kann einhver að spyrja: Er rétt af ríkinu að vera með svona kröfur, verða aðgerðirnar ekki að vera almennar?
Þá verðum við að hafa í huga í hvaða samhengi þessar aðgerðir eru settar fram. Fyrr í vikunni lýsti Bjarni Benediktsson yfir hvert planið er. Hann ætlar í samstarfi við bankana að útbúa lista yfir það sem hann kallar lífvænleg fyrirtæki og aðstoða þau með lánafyrirgreiðslu bankanna (sem ríkið mun liðka til um). Hinum megin á þessu blaði er auðvitað annar listi, sem kalla má dauðalista; sambærilegan þeim sem farið var eftir árin eftir Hrun. Það er því yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að nýta yfirstandandi áföll til samþjöppunar auðs og valda innan færri fyrirtækja og fella þau fyrirtæki sem hafa veitt þessum völdu fyrirtækjum samkeppni. Og almennar aðgerðir til að bæta lausafjárstöðu allra fyrirtækja jafnt miðað við umsvif, færa stærstu fyrirtækjunum afl til að ná árangri innan þessarar áætlunar Bjarna og ríkisstjórnarinnar um aukna samþjöppun og meira vald til færri. Grunnáætlunin er að beita afli ríkis og fjármálakerfisins til að ýta undir samþjöppun til þeirra sem eiga mest.
Því miður er engin stjórnarandstaða við þessa áætlun á þingi. Um leið og blásið er til fordæmalausra aðgerða vegna fordæmalausra aðstæðna fellur allur þingheimur í snyrtilega röð, sem skipar sér ekki sem vörn fyrir framan almenning heldur að baki Bjarna Benediktssonar, sem hefur aðeins það markmið að nýta komandi kreppu til að verja allra stærstu eigendur allra stærstu fyrirtækjanna og bæta enn við eignir þeirra, auð og völd.
Það er ekki að furða þótt að um 4/5 hlutar landsmanna hafi misst trú á Alþingi og stjórnmálunum almennt. Það er ekki byggt á reiði eða vanstillingu, eins og elítustjórnmálin vilja halda fram, heldur er þetta menntuð afstaða byggð á sárri reynslu. Stjórnmálin þjóna ætíð hinum fáu, ríku og valdamiklu. Og aldrei frekar en þegar á bjátar.