Tveir hjartalæknar á Landspítalanum, Sigfús Gizurarson og Kristján Guðmundsson, skrifa grein sem birt er í Fréttablaði dagsins. Þar fjalla þeir um gáttatif og hjartsláttartruflanir. Þar á meðal segja þeir frá hvaða afleiðingar það getur haft:
„Um þriðjung heilablóðfalla má rekja til gáttatifs. Auk þess eru einstaklingar með gáttatif í hættu á að þróa með sér hjartabilun. Gáttatif getur átt þátt í að valda ótímabærum dauða. Miðast meðferð gáttatifs fyrst og fremst að því að finna þá einstaklinga sem í mestri hættu eru og fyrirbyggja blóðtappamyndun með blóðþynningu, slík meðferð er oftast ævilöng.“
Þetta er bara hluti þess sem þeir benda á. En hvað er gert, hvernig er brugðist við?
„Brennsluaðgerðir eru framkvæmdar á þræðingarstofu Landspítalans. Eins og staðan er núna önnum við ekki öllum þeim sjúklingum sem vísað er til okkar. Biðlistinn fyrir brennslur er eins og margir aðrir biðlistar fyrir aðgerðum á Íslandi langur. Við höfum síðastliðin 3 ár ríflega tvöfaldað fjölda aðgerða en samt sem áður eru rúmlega 400 einstaklingar sem bíða eftir aðgerðum vegna hjartsláttartruflana. Ljóst er að samstillt átak Landspítala og heilbrigðisyfirvalda þarf til að koma þessum málum í ásættanlegt horf fyrir sjúklinga. Sem stendur er biðin hið minnsta 2 ár eftir þessum aðgerðum.“