4.000 ný störf í tíð ríkisstjórnarinnar
Atvinnumál Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, var í viðtali, í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær, þar sem talað var um uppbyggingu nýrra orkufrekra iðjuvera á Íslandi.
Jón sagði að þegar hafi verið gerðir samningar við sum fyrirtækjanna, en með fyrirvörum. Hann sagði eftirspurn eftir orku fara vaxandi og brýnt sé að ráðast í gerð nýrra vatnsafksvirkjana.
„Helst er horft til virkjanakosta í neðri Þjórsá. Við vorum með einn virkjanakost þar undir í þinginu í vor en það náðist ekki að klára það, en verður vonandi klárað stax í haust. Þannig að Landsvirkjun hafi fastara land undir fótum.“
Jón sagði Ísland vera eina landið í Evrópu í dag, þar sem fyrirtæki, sem þurfa orku, geta gert langtímasamninga um orku.
„Það verður að hraða vinnu við rammaáætlun, gagnvart þeim virkjanakostum sem augljóslega eiga að fara í nýtingaflokk.“
Talið barst að ahgvexti. „Einhver bankanna spáði yfir sex prósent hagvexti á næsta ári.“
Jón Gunnarsson sagði að frá því að ríkisstjórnin tók til starfa, fyrir tólf mánuðum, hafi skapast um fjögur þúsund ný störf á Íslandi. „Við skulum átta okkar á því, að ef hagvöxtur verður yfir sex prósent á árinu 2015, má reikna með að það kalli á sex þúsund ný störf.“
Og að lokum sagði þingmaðurinn: „Það sem mestu skiptir er að þetta skapar útflutningsverðmæti, við fáum gjaldeyri fyrir framleiðsluna frá þessum verksmiðjum þegar þær verða komnar í gang.“