Fréttir

33 kettir verða að halda sig innandyra á kvöldin og næturnar: „Ekki sérstakt eftirlit á nóttunni með lausagöngu katta“

By Ritstjórn

June 19, 2022

Í Fjallabyggð verður lausaganga katta mjög líklega bönnuð að kvöld- og næturlagi á þeim tíma sem varptími fugla stendur sem hæst; ekki er þó á dagskrá að beita viðurlögum við brotum á kattabanninu.

Fjallabyggð.

Tvö ár eru liðin frá því að sveitarfélaginu baðst beiðni um bann við lausagöngu katta.

Formaður skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar, Arnar Þór Stefánsson, segir að þá hafi verið teknar saman kvartanir og tilkynningar sem kæmu á borð sveitarfélagsins.

Arnar Þór Stefánsson

„Það bárust alveg nokkrar tilkynningar þannig að það var eðlilegt að rökstyðja þetta bann. Svo var í rauninni farið þessa málamiðlunarleið að banna lausagöngu katta á nóttunni yfir sumartímann,“ segir Arnar í samtali við RÚV.

Kemur fram að ef bannið gengur eftir þurfa þeir 33 kettir sem skráðir eru til heimilis í Fjallabyggð að halda sig inni á milli átta á kvöldin og átta á morgnana, frá fyrsta maí til fimmtánda júlí; tillagan að banninu var samþykkt einróma af skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar. Tillagan var send áfram til bæjarstjórnar sem tekur lokaákvörðun um málið í næstu viku.

Arnar býst við að kattaeigendur bregðist vel við – enda niðurstaðan að hans mati góð lending.

„Það eru engin viðurlög við broti á samþykkt um kattahald hjá bænum og það er ekki uppi plön um að gera það, við ætlum ekki að framfylgja þessu með að vera með sérstakt eftirlit á nóttunni með lausagöngu katta.“