Fyrir margt löngu tjölduðum við á Hólum í Hjaltadal. Frábært veður og fjöldi fólks. Skammt frá okkur hafði Guðjón Þórðarson, þá nýorðinn landsliðsþjálfari, tjaldað ásamt sínu fólki.
Við Guðjón vorum vel málkunnugir. Sátum drjúgum stundum á bekk á tjaldsvæðinu. Drukkum mikið kaffi og borðuðum heimabakaða snúða. Nokkrir peyjar léku sér í fótbolta. Ósjaldan stóð landsliðsþjálfarinn upp. Stöðvaði leik strákanna. Benti þeim á með mikilli vinsemd hversu mikilsvert væri að spila saman. Gefa á samherja. Aðstoða þá sem þurftu að verjast og svo framvegis. Eftir leiðbeiningar landsliðsþjálfarans breyttist fótboltinn á tjaldsvæðinu frá því að vera tilviljanakennt spark yfir í fínasta fótbolta.
Fram undan var landsleikur við heimsmeistara Frakka. Mér leist ekki á blikuna. Guðjón hafði ekki miklar áhyggjur. Sagði þá að leikurinn færi eitt eitt. Ég hváði. Eitt eitt? Hvernig dettur þér það í hug?
Guðjón sagði mér hvers vegna hann væri svo viss. Það fyrsta er að þeir skora eitt mark. Hvernig veit ég ekki, en þeir skora sagði Guðjón. Barthez, markmaður Frakkana, er gallagripur sagði, sagði Guðjón. Hann á það til að hlaupa út úr markinu. Þegar við fáum aukaspyrnu talsvert frá marki mun Rúnar Kristinsson gefa boltann rétt innan við vítateigslínuna. Þá mun Barthez koma hlaupandi úr markinu. Rikki Daða mun vita að boltinn mun koma frá Rúnari. Rikki mun má stökkva upp og skalla yfir Barthez. Í autt markið.
Það gerðist svo í leiknum. Nákvæmlega eins og Guðjón sagði á tjaldsvæðinu í Hjaltadal þá um sumarið.
Ég æfði á þessum tíma í World Class í Hallarmúla. Þegar Frakkaleikurinn nálgaðist giskaði fólk á hvernig leikurinn færi. Allt var skrifað upp á töflu. Ég sagði að leikurinn væri eitt eitt og bætti við að Rikki myndi skora með skalla eftir sendingu frá Rúnari.
Auðvitað hafði ég rétt fyrir mér. Guðjón hafði jú sagt mér það.
-sme