Hverjum þjónar lífskjarasamingurinn best?
Stórfyrirtæki og auðrisar myndu misst spón úr aski sínum. Og það má ekki.
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Áhersluatriði OECD um Ísland eru þekkt stef nýfrjálshyggjunnar. Áhersla á einkavæðingu, hagvöxt og aukna samkeppni. Bætt samskipti við verkalýðshreyfinguna ekki til að bæta hag láglaunafólks heldur til að auka samkeppnishæfi Íslands. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu OECD um íslensk efnahagsmál. Það er eftirtektarvert að stofnunin hrósar nýja lífskjarasamningnum þá væntanlega vegna þess að hann getur aukið samkeppnishæfi Íslands og hagvöxt. Þetta finnst mér segja heilmikið um lífskjarasamninginn og gildi hann fyrir markaðsöflin, kapítalisma og nýfrjálshyggju. Eins og ég sé þetta er það stórt viðvörunarmerki fyrir íslenska verkalýðshreyfingu. Hverjum þjónar þessi lífskjarasamningur best? Hverjum í raun og veru?
OECD er rekin áfram af hugmyndafræði þeirri sem einkennir nýfrjálshyggjuna. Það sama á við um aðrar viðamiklar og stórar alþjóðastofnanir eins og Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið.
Það að vera á móti svona áherslum í alþjóðasamvinnu er ekki sama og að hafna alþjóðasamvinnu eins og andstæðingar sósíalisma vilja gjarnan halda fram. Þvert á móti er alþjóðasamvinna eitt af grunnstefjum sósíalismans sem leggur áherslu á samvinnu og samstarf allar þjóða í nafni réttlætis, jöfnuðar, mannhelgi og raunverulegs frelsis til handa öllum en ekki bara sumum útvöldum eins og heimurinn lítur út í dag.
Það er ótrúlegar mótsagnir í skýrslu OECD. Hagvöxtur hafður til vegs og virðingar en jafnframt lögð áhersla á umhverfismál og Íslandi hrósað fyrir græna orku. Það vita allir sem eitthvað hafa fylgst með umhverfismálum að aukinn hagvöxtur vinnur gegn allri baráttu gegn hamfarahlýnun. En það hentar ekki nýfrjálshyggjuhugmyndafræði samtímans að horfast í augu við þetta. Stórfyrirtæki og auðrisar myndu misst spón úr aski sínum. Og það má ekki.