Án VG hefðu þessi ósköp aldrei orðið að veruleika
Myndin er eftir Hallór Baldursson og birtist í Viðskiptablaðinu.
Tómas Guðbjartsson skrifar:
Þessi frábæra skopmynd birtist í Viðskiptablaðinu og sýnir forsætisráðherra dröslast með Bakka-draslið hans Steingríms J upp Ok. Bakki er eitt mesta klúður í stóriðjusögu Íslendinga og algjör tímaskekkja. Fyrir utan mengunina af brennslu 66 þús. tonna af kolum þá er ófyrirgefanlegt að planta henni niður á þessum stað, steinsnar frá vinalegri Húsavík sem áður stóð við einn fallegasta fjörð á Íslandi.
Án VG hefðu þessi ósköp aldrei orðið að veruleika, og það er ódýr skýring hjá forsætisráðherra að segja ákvörðunina tekna þegar allt aðrar aðstæður réðu hér á landi eftir bankakreppu. Verksmiðjan var alveg jafn mengandi þá og nú og ekki fríkkar hún með árunum.
Þau eru rándýr Bakkaatkvæði VG fyrir norðan sem varla munu eftir timburmennina skila sér í kassana í næstu kosningum. Nú gildir fyrir VG að hrista af sér bitlingapólítík sem hingað til hefur verið eignuð Mið- og Framsóknarflokki. Til dæmis gæti VG sýnt meiri lit í ruglinu í kringum Hvalárvirkjun og United Silicon.
Koma svo !