„Núna er 300 tonna bátur frá Suðurnesjum, sem hefur fram að þessu nánast alltaf landað annaðhvort í Sandgerði eða Þorlákshöfn, að þurrka upp Patreksfjörð á snurvoð,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, þegar hún átti í orðaskiptum við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra.
„Ég efast ekki um að hæstvirtur ráðherra hafi heyrt þessar óánægjuraddir, sem eru ekki bara tial komnar út af þessu eina dæmi heldur út af svo mörgu öðru. Þannig að mig fýsir að vita: Hvernig stendur á því að þessir hlutir eru látnir viðgangast, að skip komi annars staðar að, risaskip sem þurrka upp firðina sem smábátaútgerðareigendur gætu annars nýtt sér, t.d. í vonskuveðrum með því að vera inni á fjörðunum sínum í stað þess að leita lengra út til að fiska?“
„Ég þekki þessar deilur um snurvoðina sem hafa staðið í ár og áraraðir, mjög lengi,“ svaraði ráðherrann, og bætti við: „En ráðuneytið hefur ekki endilega verið með bein pólitísk inngrip í fiskveiðistjórnina, eins og mér heyrist háttvirtur þingmaður vera að kalla eftir.“