Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, upplýsir að um 300 menntaðir hjúkrunarfræðingar hafi valið að starfa við annað en hjúkrun. Guðbjörg segir þörf sé á öllu þessu fólki til starfa á Landspítalanum sem og á öðrum stofnunum.
Þetta kemur fram í Mogganum í dag. Þar segir: „Kjarasamningar hjúkrunarfræðinga við ríkið hafa verið lausir í níu mánuði og þolinmæði félagsmanna gagnvart samninganefnd ríkisins er á þrotum. Þetta segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.“
Þetta er merkilegt að jafn fjölmenn starfsstétt og nauðsynleg skuli hafa verið samningslaus í níu mánuði. Sú meðferð sem hjúkrunarfræðingar sæta er ekki síður merkileg í ljósi tveggja daga gamalla ummæla heilbrigðisráðherrans, Svandísar Svavarsdóttur:
„Ein stærsta áskorun sem heilbrigðiskerfi þjóða standa frammi fyrir nú er mönnunarvandi, t.d. í hjúkrunarfræði. Kjör skipta meginmáli við lausn á þessu máli og ljóst er að nauðsynlegt er að bæta kjör hjúkrunarfræðinga ljósmæðra og annarra stétta heilbrigðisstarfsfólks. Þá á ég við kjör í víðu samhengi, þ.e. laun, vinnutíma og starfsumhverfi og fulla viðurkenningu á menntun og ábyrgð.“
Það sem Svandís segir og skrifar stangast algjörlega á við raunveruleikann.