300.000 króna tekjur verði skattfríar
Vilja að Alþingi feli Bjarna Benediktssyni að leggja fram frumvarp svo þannig verði.
„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp fyrir lok árs 2018 um að mánaðartekjur einstaklinga undir 300.000 kr. verði undanþegnar tekjuskatti með það að markmiði að rétta hlut þeirra sem lægstar hafa tekjurnar og gera þeim betur kleift að ná endum saman.“
Þannig hljóðar tillaga til þingsályktunnar þar sem þingmenn úr Flokki fólksins og Miðflokksins sameinast og leggja þetta til.
Í greinagerðinni segir meðal annars: „…heildarskattbyrði launafólks að teknu tilliti til tekjuskatts, útsvars og persónuafsláttar auk barna- og vaxtabóta hafi aukist í öllum tekjuhópum á tímabilinu og að aukningin sé langmest hjá hinum tekjulægstu. Skattbyrði para á lágmarkslaunum með tvö börn og lágmarks upphæð eigin fjár í húsnæði (20%) hefur í heild aukist um 21 prósentustig á umræddu tímabili. Skattbyrði hjá pörum í sömu stöðu með laun við neðri fjórðungsmörk hefur aukist um 14 prósentustig en við miðgildi launa er aukningin 9 prósentustig og við efri fjórðungsmörk 5 prósentustig. Skattbyrði einstæðra foreldra í sömu stöðu hefur aukist enn meira á tímabilinu og mest hjá hinum tekjulægstu.“ Tímabilið er frá 1998 til 2016.
Greinagerðinni lýkur svona: „Lágmarksframfærsla samkvæmt þessu verður naumast metin undir 300.000 kr. og má telja þá fjárhæð síst ofáætlaða miðað við þróun húsnæðiskostnaðar á umliðnum misserum og árum. Þetta þýðir að samkvæmt gildandi ákvæðum laga um tekjuskatt eru skattlagðar tekjur sem ekki hrökkva fyrir lágmarksframfærslu. Á mæltu máli má segja að hér sé verið að skattleggja fátækt. Ekkert ríki sem vill kenna sig við velferð getur verið staðið að slíkri skattlagningu. Þessi þingsályktunartillaga er því lögð fram með það að markmiði að fólki verði gert kleift að komast betur af og að enginn þurfi að sjá dreginn skatt af tekjum sem duga ekki fyrir nauðþurftum.“