- Advertisement -

25% raunverðshækkun á einu ári

-nú hefur verð í fjölbýli hefur lækkað og mun minni hækkanir eru á verði í sérbýli. Getur verið að nú sé kólnun á fasteignamarkaði?

Í fyrsta sinn í nokkurn tíma hefur fasteignaverð ýmist lækkað eða dregið hefur verulega úr verðhækkunum. Verð á fasteignum í fjölbýli, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, lækkaði lítillega í síðasta mánuði, eða um 0,2 prósent. Verð í sérbýli hækkaði á sama tíma um 1,6 prósent, sem er mun minni hækkun en verið hefur.

Samkvæmt tölum Þjóðskrár hefur verð á fjölbýli hækkað um 21,4 prósent á síðustu 12 mánuðum, verð á sérbýli um 20,4 prósent og er heildarhækkunin 21,2 prósent, sem er rúmum tveimur prósentustigum lægra en var í maí.

Upplýsingar eru sóttar á Hagsjá Landsbankans. Þar er minnst á umræðu um kólnun á fasteignamarkaði. „Hækkunin nú í júní er sú minnsta síðan í ágúst 2015 og fjölbýli hefur ekki lækkað í verði síðan í júní 2015. Of snemmt er að segja nokkuð um hvort markaðurinn sé að kólna eða ekki,“ segir þar.

Sitthvað er verðhækkun og raunverðshækkun. Þegar tillit er tekið til verðbólgu sést að raunverð  fasteigna hefur þannig hækkað um u.þ.b. 25 prósent á einu ári, frá júní 2016 til júní 2017.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Verðbólga hefur verið lítil og stöðug síðustu misseri og því hefur raunverð fasteigna hækkað mun meira en ella. Að undanskildum húsnæðiskostnaði hefur ríkt verðhjöðnun í hagkerfinu frá því um mitt ár 2016. Vísitala neysluverðs án húsnæðis í júnímánuði var þannig um 3,1% lægri en í júní 2016. Það þýðir að allar nafnverðshækkanir á húsnæði síðasta árið koma nú fram sem meiri raunverðshækkun sem nemur þeirri tölu,“ segir í Hagsjánni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: