Inga Sæland:
„Svoleiðis er ekki gott samfélag, bara alls ekki. Svoleiðis er einfaldlega samfélag sem lætur sér á sama standa. Við í Flokki fólksins viljum ekki svoleiðis samfélag. Við viljum ekki samfélag sem lætur sér á sama standa.“
Alþingi
„Árið 2014 þá létust — nú skulum við sjá hvernig þetta er, hvernig þetta biðlistakerfi er byggt upp og hvernig búið er að draga lappirnar í því að taka utan um okkur þegar við erum að ganga síðasta æviskeiðið. Hvers lags skömm er að því að árið 2014 dóu 114 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunarrými? Árið 2015 var það 141, 178 árið 2016 og 183 árið 2018. Við sjáum þessa þróun, hún er öll í þá átt að það deyja fleiri á biðlista eftir því að komast á hjúkrunarheimili. Þessari þróun verður að snúa við. Nú erum við og þingið enn eina ferðina að fela framkvæmdarvaldinu að koma með þessa heildstæðu löggjöf sem á að taka á öllu þessu. Við sjáum það líka í hendi okkar, hvernig er hægt að réttlæta það að borga jafnvel átta sinnum meira fyrir að einstaklingur skuli vera fastur inni á Landspítala frekar en að byggja upp alvöruþjónustu fyrir fólkið okkar? Að sjálfsögðu eigum við að gera það. Að sjálfsögðu eigum við að sýna fólki þá virðingu að taka utan um það af öllu hjarta og gera allt sem í okkar valdi stendur til að við getum haft það gott í samfélaginu eins og kostur er, að utan um okkur sé tekið,“ sagði Inga Sæland á Alþingi, fyrir páskafrí.
„Það á enginn einasti einstaklingur að þurfa að vera sendur heim, t.d. af sjúkrahúsi, segjast sjálfur geta farið heim en vera svo aleinn og félagslega einangraður. Það deyja um 25 eldri borgarar á hverju ári einir heima. Að meðaltali ríflega tveir á mánuði, allan ársins hring. Sumir eru búnir að vera dánir ansi lengi áður en nokkur kemur að athuga um þá. Svona er Ísland í dag, svona er umhyggjan okkar fyrir okkar elstu bræðrum og systrum í dag. Flokkur fólksins er ítrekað búinn að mæla fyrir því að fá hagsmunafulltrúa fyrir eldra fólk sem myndi kortleggja allt þetta, myndi taka utan um okkur þegar við værum orðin þetta fullorðin og komin á síðasta æviskeiðið þannig að við yrðum aldrei félagslega einangruð og enginn vissi að við værum til. Svoleiðis er ekki gott samfélag, bara alls ekki. Svoleiðis er einfaldlega samfélag sem lætur sér á sama standa. Við í Flokki fólksins viljum ekki svoleiðis samfélag. Við viljum ekki samfélag sem lætur sér á sama standa.“
Hér er hægt að lesa ræðu Ingu.