- Advertisement -

Sár og sigrar Davíðs og Halldórs

Það gekk á ýmsu í samstarfi Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Það hefur margt verið sagt og skrifað um ríkisstjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hér er fréttaskýring sem birtist í Mannlífi snemma árs 2008.

Þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson mynduðu síðustu ríkisstjórnina sína, að loknum kosningum 2003, voru þeir báðir sárir og meiddir. Kosningarnar höfðu reynt mikið á þá báða og áframhaldandi samstarf átti eftir að reynast báðum dýrkeypt. Þeir neyddust til að hætta í stjórnmálum. Þeir höfðu gengið of langt, gert of mikið. Hér á eftir eru dregnar upp nærmyndir af Davíð og Halldóri og stjórnmálafræðingur segir hug sinn um samstarf þeirra og stjórnmálamenn einnig. Helsta niðurstaðan er sú að Davíð og Halldór hafi unnið gegn þingræðinu. Þeir leyfðu ekki gagnrýni, hlustuðu lítið sem ekkert á eigin þingmenn og með sterkum tökum náðu þeir heljartökum á þingflokkunum og um leið á Alþingi, sem varð nokkurs konar afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið, sérstaklega fyrir þá tvo.

 Deilur foringjanna

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson deildu oft meðan þeir voru oddvitar stjórnarflokkanna í löngu og stríðu samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 1995 til 2007. Af viðtölum við flokksmenn beggja flokka er ljóst að Halldór gaf mikið eftir, hélt friðinn, sem varð til þess að Davíð fékk vilja sínum oft framgengt með því að vera harðari og ákveðnari. Stundum mátti minnstu muna að stjórnin spryngi vegna innbyrðis átaka. „Halldór var ekki nógu mikill pólitíkus til að starfa svona náið með Davíð,“ sagði reyndur framsóknarmaður. „Hann var svo tryggur samstarfsmaður að hann fórnaði stöðu Framsóknarflokksins frekar en fara í hart af alvöru.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Viðmælendur Mannlífs í Framsóknarflokki eru þeirrar skoðunar að þingmenn og ráðherrar flokksins hafi stundum óskað þess að ríkisstjórnarsamstarfinu lyki. Það var einkum á síðasta kjörtímabilinu, 2003 til 2007. „Flokkurinn þoldi ekki meira og þess vegna átti aldrei að mynda síðustu ríkisstjórn þessara flokka,“ segir einn af þingmönnum Framsóknar.

En hvaða mál voru það sem voru erfiðust og hefðu jafnvel geta sprengt ríkisstjórnina? Þeir þingmenn og ráðherrar sem rætt var við voru ekki í minnsta vafa: Íraksmálið og fjölmiðlamálið. Þeir segja að þá hafi líf ríkisstjórnarinnar hangið á bláþræði.

„Fjölmiðlamálið var okkur erfitt. Flokkurinn nánast logaði. Fólk hringdi eða sendi póst og segja má að andstreymið hafi verið mjög mikið,“ segir einn af þáverandi þingmönnum. Hann segir það ekki hafa verið vegna málsins sjálfs, heldur vegna þess hvernig Davíð Oddsson hamaðist. „Fólk vildi ekki að við létum þetta eftir honum.“ Halldór er sagður hafa gefið of mikið eftir. Honum hafði áður tekist að mýkja málið frá upphaflegum hugmyndum Davíðs, en ekki nóg, að mati flestra þeirra framsóknarmanna sem urðu að fjalla um málið.

Áður en kom til þess að forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson, hafnaði fjölmiðlalögunum, hafði mikið gengið á. Stuðningur einstakra þingmanna Framsóknarflokksins var að breytast, hann veiktist og Halldór var orðinn efins um að hann gæti tryggt að þingmennirnir styddu hann öllu lengur í málinu og þá um leið að hann gæti efnt fyrirheit sín við Davíð Oddsson um framgang málsins. Halldór kallaði þingmennina á einkafundi, maður á mann. Eins var haldinn leynifundur í þingflokknum í höfuðstöðvum flokksins við Hverfisgötu. Þangað var öllum þingmönnunum boðið, nema Kristni H. Gunnarssyni. Samkvæmt heimildum Mannlífs sögðu sumir þingmannanna að þeir væru efins og vildu ekki halda málinu áfram. Halldór var að missa stuðninginn í málinu. Það var nokkuð sérstök staða þar sem allir ráðherrar flokksins, nema Halldór og Valgerður, jánkuðu fyrstu útgáfu Davíðs af frumvarpi til laga um fjölmiðla. Það var Halldór sem barðist gegn þeim og fékk Davíð til að endurskoða vilja sinn og mýkja frumvarpið frá því sem hann vildi. Þingmönnum fannst sem þeir þyrftu að velja á milli framtíðar flokksins og þingsins, þeir vildu frekar velja framtíð flokksins. Halldór var í vanda, þingflokkurinn var að bregðast honum.

Einn viðmælenda bendir á að Alfreð Þorsteinsson hafi sagt í viðtali á Stöð 2 að framgangan í fjölmiðlamálinu væri ekki í anda Framsóknarflokksins. Þó að Alfreð kunni að vera umdeildur innan flokksins hefur alltaf verið hlustað á hann.

Eftir að Ólafur Ragnar synjaði lögunum staðfestingar fór allt á fleygiferð. Nokkrir þingmenn Framsóknar höfnuðu hver af öðrum stuðningi við áframhaldandi baráttu Davíðs Oddssonar.

Davíð mætti einnig andstöðu við fjölmiðlalögin í sínum flokki. Lengst gekk Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi og fyrrum þingmaður. Hann og Davíð hnakkrifust á þingflokksfundi. Gunnar sagði það sem margir þingmenn eru sagðir hafa hugsað en ekki viljað eða þorað að orða. Gunnar rauk af fundi ósáttur.

Lögin voru dregin til baka og komu aldrei til þjóðaratkvæðagreiðslu og fjölmiðlamálið fékk hægt andlát.

Guðni talar

Guðni Ágústsson, núverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrum varaformaður, kemur inn á samskipti flokkanna í bók sinni sem kom út fyrir jólin. Þar segir Guðni:

„Framsóknarflokknum heilsast heldur illa þegar líður fram á annað kjörtímabil hans í stjórn með sjálfstæðismönnum. Þau óvæntu tíðindi spyrjast  út í þann mund sem landsmenn hafa tekið pappírinn utan af jólagjöfum sínum undir árslok 1999 að Finnur Ingólfsson hyggist hverfa frá stjórnmálavafstri sínu. Þetta kemur flatt upp á flokksmenn, svo og þjóðina alla. Finnur hefur verið krónprins flokksins um nokkurt skeið og vart eru  nema nokkur misseri frá því hann yfirgaf stjórnmálavöllinn. Það er því skammt stórra högga á milli í forystu flokksins. Finnur gefur þá skýringu að hann sé uppgefinn á pólítík; honum hugnist ekki sá harði stíll sem einkenni þjóðmálaumræðuna og vilji forða fjölskyldu sinni frá frekara níði um störf sín í fjölmiðlum. Víst er að hann hefur fengið sinn skammt af óvæginni gagnrýni, enda hafa nálega öll spjót beinst að honum í þau fimm ár sem hann hefur gegnt ráðherradómi og hefur þar margt misgáfulegt verið látið falla, svo sem ávirðingar um sérgæsku og yfirhylmingu. Finni er ekki rótt. Hann vísar meðal annars til þess hve illa hafi verið farið með Halldór Ásgrímsson og fjölskyldu hans í aðdraganda kosninganna fyrr á árinu. Og honum sýnist sem ekkert lát muni verða á neikvæðri umfjöllun um persónu sína í fjölmiðlum. Hann sé hinn raunverulegi blóraböggull fyrir allt það sem miður fari í stjórnarsamstarfinu – og eigi það hreint ekki skilið. Finnur horfir á stól seðlabankastjóra sem hefur staðið auður í tvö ár eftir að Steingrímur Hermannsson settist í helgan stein – og er það reyndar hald margra að Halldór Ásgrímsson sé sjálfur að bíða eftir rétta tækifærinu til að setjast í hann til að eftirláta Finni stjórnartaumana í Framsóknarflokknum. En það er ekki reyndin. Til er ágæt saga af þeim Finni og Halldóri í vetrarbyrjun þegar sá fyrrnefndi er að undirbúa brottför sína úr pólitík. Þá eru þeir á leið til fundar við Davíð Oddsson í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Þegar þeir eru komnir í anddyrið heyrist Halldóri sem einhver sitji á rökræðum við Davíð og spyr hann Finn hvort hann vilji ekki banka. „Jú,“ segir Finnur að bragði: „Ég vil Seðlabanka!“ Og það gengur eftir, hvort heldur saga er sönn eða ekki.“

 Mynd valdhrokans

Það fór svo að hvorki Davíð Oddsson né Halldór Ásgrímsson réðu endalokum sínum í stjórnmálum. Þeir náðu báðir kjöri í kosningunum 2003, en hvorugur fékk góða kosningu. Á ævintýralegan hátt fékk Framsóknarflokkurinn tvo menn kjörna í nýju kjördæmi Halldórs Ásgrímssonar, Reykjavík norður. Flokkurinn vann mikinn varnarsigur og var laskaður eftir kosningar en lengi vel leit út fyrir að Halldór formaður næði ekki kjöri.

Guðni kemur inn á þetta í bókinni. Þar segir:

„Almælt er á aldamótaári að forystumenn stjórnarflokkanna séu farnir að þreytast í störfum sínum. Davíð hefur þá þegar slegið Íslandsmetið í samfelldri setu á stóli forsætisráherra og Halldór á sjálfur að baki hálfs annars áratugar embættistíð í fjölmörgum ráðuneytum. Þreytan lýsir sér í meiri hörku og stífni en þessir ráðamenn hafa áður sýnt. Léttleiki og umburðarlyndi Davíðs er að víkja og það er eins og þær miklu breytingar sem orðið hafa á samfélagsgerðinni séu byrjaðar að fara í taugarnar á honum. Frelsið hefur fært fáeinum mönnum fullar hendur fjár – og það er eins og þeir eigi sviðið í landinu. Davíð kemur Guðna fyrir sjónir eins og miðill sem hefur misst andann úr glasinu. Hann er að verða mjög ósáttur við nýríka stóreignamenn sem sjást ekki fyrir í auðsöfnun sinni. Það má ráða á viðbrögðum Davíðs að völdin séu að færast á vitlausan stað; þessi sonur einstæðrar móður er kannski, þegar á öllu er botninn hvolft, meiri jafnaðarmaður en hann hefur gefið til kynna í gegnum aukna misskiptingu sem er að verða í samfélaginu undir hans stjórn, samfélagi sem hefur vel að merkja verið stéttlaust um aldir. Halldór er sem fyrr á tíðum ferðalögum og er fyrir vikið farinn að fjarlægjast þann suðupott sem ólgar heima á Íslandi. Honum er óhægt um vik að taka jafn ríkulega til kostanna í þjóðmálaumræðunni heima á Fróni og samstarfsmaður hans í ríkisstjórninni. Hann hefur ekki sömu tækifærin og Davíð Oddsson til að tala við þjóð sína og sannfæra hana um sína pólitík, þótt hann sé vissulega duglegur að halda pólitíska fundi um allt land þegar hann er á landinu. Það er dregin upp mynd valdahrokans af þeim báðum í fréttum og skoðanaskrifum dagblaðanna – og nú er líka kominn fram á sjónarsviðið nýr miðill sem eirir engu í skrifum sínum; sjálft netið, nafnlaust og níðandi. Það rísa öldur gegn stjórninni, ekki síst þeim verkum sem Finnur hefur stýrt og Valgerður Sverrisdóttir, eftirmaður hans í iðnaðar- og viðskiptaráðaneytinu, hefur nú tekið við, hvort heldur er á sviði stóriðju, virkjanamála eða einkavæðingar ríkisbankanna. Og gangrýnin kemur víða við, jafnt frá víðlesnum álitsgjöfum sem menntamönnum og þó ekki síst listafólki – og nú ber einnig nýrra við; jafnvel biskupi Íslands ofbjóða tilburðir ráðamanna í náttúru- og umhverfismálum. Þá er augljós hugur forsætisráðherra til forseta Íslands og nálgast þar reyndar ögurstund.“

Davíð var í vondum málum eftir kosningarnar 2003. Hann náði ekki að verða fyrsti þingmaður síns kjördæmis. Það markaði hann, það var mikill ósigur að Össur Skarphéðinsson skyldi ná að verða fyrsti þingmaður kjördæmisins og Davíð varð að sætta sig við að vera aðeins annar þingmaður síns kjördæmis. Um sex þúsund færri kusu Sjálfstæðisflokkinn 2003 en gerðu það 1999 og flokkurinn missti fjóra þingmenn. Það var undir þessum kringumstæðum sem Halldóri var gert, af sínum flokksmönnum, að krefjast þess að verða forsætisráðherra. Það varð úr og hann tók við því embætti um miðjan september árið eftir, það er 2004.

Eftir að hafa verið ótvíræðir forystumenn í íslenskum stjórnmálum í langan tíma fór svo að báðir gáfust upp áður en þeim tókst að ljúka þeim tíma sem þeir voru kosnir til. Davíð fór í Seðlabankann og öllu afli var beitt í Norðurlandaráði til að tryggja Halldóri framkvæmdastjórn norrænu ráðherranefndarinnar.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: