Samfélag Launavísitalan hækkaði um 8,7% 12 mánaða tímabili, frá nóvember til nóvember. Þar sem verðlagsþróun var hagstæð á tímabilinu jókst kaupmáttur launa á sama tíma um 6,5%. Þetta eru miklar launahækkanir í sögulegu samhengi. Kaupmáttaraukningin er einnig mikil og þarf að fara aftur til nóvember 1998 til að sjá meiri hækkun.
Sé litið á kaupmáttarþróun í langtímasamhengi sést að kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri en nú. Kaupmáttur er nú um 6,5% hærri en hann hefur nokkurn tíma verið sem var sumarið 2007.
Í kjarasamningum á almenna markaðnum var ein grundvallarforsendan sú að aðrir hópar fengju ekki meiri hækkanir, ella væri samningurinn uppsegjanlegur, í fyrsta skipti í lok febrúar 2015. Það er nú í höndum sameiginlegrar nefndar samningsaðila á almenna markaðnum að meta hvort þær stjórnvaldsákvarðanir og lagabreytingar sem fram komu í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 29. maí hafi náð fram að ganga og hvort samningurinn frá 29. maí hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra samningsgerð. Augljóst er að forsendan um launaþróunina hefur brugðist og ekki er að sjá að t.d. loforð ríkisstjórnar um byggingu leiguíbúða á árinu 2016 nái fram að ganga. Ljóst er því að leita þarf samkomulags um viðbrögð til þess að hægt sé að framlengja samningnum.
Það skiptir verulegu máli fyrir íslenskt efnahagslíf að samningum verði ekki sagt upp í febrúar. Afnám gjaldeyrishafta, stór stöðugleikaframlög í ríkissjóð, kosningar á árinu 2017 eru allt þættir sem kalla beinlínis á að friður ríki áfram á vinnumarkaði.