- Advertisement -

2/3 landsmanna telja spillingu mikið vandamál í íslenskum stjórnmálum

Gunnar Smári skrifar:

Aðeins 3% landsmanna telja spillingu vera mjög lítið eða ekkert vandamál í stjórnmálum í stjórnmálum og 11% frekar lítið vandamál. 22% eru beggja blands.

Svo ríkjandi að lýðræðinu stafar hætta af spillingunni og tortryggni almennings gagnvart stjórnmálunum.



Í könnun sem MMR gerði fyrir Sósíalistaflokk Íslands kemur fram að 30% landsmanna telja spillingu vera mjög mikið vandamál í íslenskum stjórnmálum og 32% að spilling sé frekar mikið vandamál. Aðeins 3% landsmanna telja spillingu vera mjög lítið eða ekkert vandamál í stjórnmálum og 11% frekar lítið vandamál. 22% eru beggja blands.

Ef við berum saman þessi 62% sem telja að spilling sé mikið vandamál í íslenskum stjórnmálum við þau 14% sem telja spillinguna vera lítið vandamál er augljóst að það er ríkjandi hugmynd meðal almennings að stjórnmálin séu spillt. Svo ríkjandi að lýðræðinu stafar hætta af spillingunni og tortryggni almennings gagnvart stjórnmálunum.

Lítinn mun er að finna á afstöðu kynjanna, konur eru þó ívið vissari um að spilling sé vandamál. Sama má segja um aldur. Í öllum aldurshópum er mikill meirihluti sem telur að spilling sé vandamál en heldur minni eftir því sem ofar dregur í aldri. Lítill munur er líka á milli landsbyggðar og höfuðborgar, en landsbyggðarfólk er þó heldur vissara um að spilling sé vandamál í íslenskum stjórnmálum.

Meira að segja æðstu embættismenn segja að spilling sé mikið vandamál

Það má greina heldur meiri mun eftir menntun. Því minni sem menntunin er því vissara er fólk um að spilling sé vandamál, en það á þó við um góðan meirihluta í öllum menntunarhópum.

Og svipaða sögu er að segja um starfsstéttir, meirihlutinn í öllum stéttum finnst spilling vera vandamál en sá meirihluti er ívið minni meðal stjórnenda og sérfræðinga en meðal heimavinnandi, verkafólks og námsmanna. Það er sláandi að á meðal Stjórnenda og æðstu embættismanna segja 30% að spillingn sé mjög mikið vandamál í íslenskum stjornmálum og 28% að hún sé frekar mikið vandamál. Fólkið á toppnum veit þetta og þekkir oft af eigin reynslu.

Svipuð leitni sést líka meðal tekjuhópa. Alls staðar telur meirihlutinn að spilling sé vandamál en sá meirihluti er stærri meðal hinna tekjulægstu en annarra.

Þetta þrennt, að meirihlutinn er minni meðal hinna betur launuðu, meðal hinna hærri settu og þeirra með lengri skólagöngu bendir fyrst og fremst til þess að eftir því sem fólk kemst ofar upp metorðastigann eða launastigann, því eðlilegra finnst því samfélagið vera, fyrst og fremst vegna þess að það er frekar lagað að kröfum þess og þörfum. Þau sem eru neðar í goggunarröðinni upplifa sig í samfélagi sem stjórnað er af fjarlægum og annarlegum hagsmunum.

En þótt merkja megi ákveðna tilhneigingu í þessa átt er hitt eiginlega réttar, að segja að það er útbreidd almenn skoðun að spilling sé vandamál á Íslandi.

Sjálfstæðisflokksfólk er sérstakur þjóðflokkur

Og kemur þá að stjórnmálaskoðunum. Í þessari könnun eins og svo mörgum öðrum sker Sjálfstæðisflokksfólk sig frá öðrum. Þegar 62% landsmanna segja að spilling sé frekar mikið eða mjög mikið vandamál á Íslandi á það aðeins við um 22% Sjálfstæðisflokksmanna. Og þegar aðeins 14% landsmanna segir að spilling sé mjög lítil eða frekar lítil í stjórnmálunum þá á það við um heil 40% Sjálfstæðisflokksfólks.

Ef við tökum Sjálfstæðisflokksfólkið frá og skoðum fylgjendur allra annarra flokka þá segjast 6% kjósenda Sjálfstæðisflokksins að það sé mjög mikil spilling í íslenskum stjórnmálum en 35% kjósenda allra annarra flokka, 22% Sjálfstæðisflokksfólks að það sé frekar mikil eða mjög mikil spilling á Íslandi en 72% fylgjenda annarra flokka.

Og hinum megin frá: 40% Sjálfstæðisflokksfólks segir að spilling sé mjög lítið eða frekar lítið vandamál í íslenskum stjórnmálum en aðeins 8% fylgjenda annarra flokka.

Sjálfstæðisflokksfólk er eins og sérstakur þjóðflokkur þegar kemur að afstöðu til flestra samfélagsmála, sker sig rækilega frá meginþorra landsmanna. Og það sem er svo undarlegt er að oftast er það sem afstaða Sjálfstæðisflokksfólks sem ræður ferðinni á Íslandi.

Svona er afstaða flokkanna

Ef við flokkum flokkana niður eftir því hvort fólk telji spillingu vera mjög mikið vandamál í íslenskum stjórnmálum þá er röðin þessi:

  1. Sósíalistaflokkur: 74%
  2. Flokkur fólksins: 52%
  3. Píratar: 50%
  4. Miðflokkur: 48%
  5. Samfylking: 29%
  6. Viðreisn: 21%
  7. Framsókn: 18%
  8. VG: 16%
  9. Sjálfstæðisflokkur: 6%
Þú gætir haft áhuga á þessum


Ef við leggjum saman þau sem segja að spilling sé frekar mikið og mjög mikið vandamál þá er listinn þessi:

  1. Píratar: 94%
  2. Sósíalistaflokkur: 92%
  3. Flokkur fólksins: 79%
  4. Samfylking: 76%
  5. Miðflokkur: 71%
  6. Viðreisn: 62%
  7. VG: 59%
  8. Framsókn: 53%
  9. Sjálfstæðisflokkur: 22%


Og ef við skoðum hinn endann þá er þetta hlutfall fylgjenda flokkanna sem telja að spilling sé mjög lítið eða frekar lítið vandamál:

  1. Sjálfstæðisflokkur: 40%
  2. Framsókn: 21%
  3. VG: 12%
  4. Samfylking: 8%
  5. Viðreisn: 8%
  6. Miðflokkur: 6%
  7. Flokkur fólksins: 4%
  8. Píratar: 1%
  9. Sósíalistaflokkur: 0%

Sósíalistaflokkurinn hefur lagt fram tilboð til kjósenda um spillingavarnir og hvernig ráðast má að rótum vandans. Sjá hér: Ráðumst að rótum spillingar


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: