Eitt dýrasta landbúnaðarkerfi í heimi
Kerfi sem þjónar engum eða fáum eru ekki góð kerfi. Tollaleiðin er bæði vond fyrir bændur og neytendur.
„Tollar eru tímaskekkja. Tollar eru tímaskekkja. Tollar eru tímaskekkja. Ég get í rauninni ekki verið skýrari, herra forseti,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson Samfylkingu þegar hann talaði um tollasamning Íslands og EDB um landbúnaðarmál.
„Að því sögðu er ég hlynntur því að íslenskir bændur búi við stuðning frá hinu opinbera,“ hélt hann áfram. „Tollaleiðin er hins vegar ekki góð leið til þess. Það hefur verið margsannað og er eitt það fyrsta sem ég kenndi nemendum mínum í viðskiptafræði í háskólanum. Tollaleiðin er bæði vond fyrir bændur og neytendur. Hún hækkar verðið, dregur úr nýsköpun og reynir að bjaga markaðslögmálin, sem er afar erfitt að gera á neytendamarkaði. Stuðningsleiðir í landbúnaði, sem trufla bæði framleiðslu og eðlileg utanríkisviðskipti, eru margar dæmdar til að mistakast. Hin skynsamlega leið til stuðnings á landbúnaði og dreifðari byggðum eru beingreiðslur og grænir styrkir.“
Ágúst Ólafur talaði um landbúnaðarkerfið. „Núverandi landbúnaðarkerfi er eitt það dýrasta í heimi. Það er slæmt fyrir skattgreiðendur, en einnig er kerfið óhagkvæmt fyrir neytendur sem greiða hærra verð en ella og búa við minna úrval. Landbúnaðarkerfið er einnig slæmt fyrir bændur sem margir hverjir hafa það slæmt fjárhagslega. Kerfi sem þjónar engum eða fáum eru ekki góð kerfi. Því tel ég að við eigum að fara í róttæka endurskoðun á stuðningskerfum landbúnaðarins þannig að hagsmunir bæði bænda og neytenda verði í forgrunni. Við viljum öflugan landbúnað og örugg matvæli þannig að bændur geti lifað á mannsæmandi kjörum. Við viljum líka kerfi sem þjónar neytendum, en hagsmunir neytenda og bænda eru ekki andstæðir. Við getum gert betur fyrir báða þessa hópa,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson.