- Advertisement -

12% mæting Sigmundar stendur upp úr þessa vikuna

Plömmer í umferðinni, diskókúla og 12% mæting Sigmundar stendur upp úr þessa vikuna

Æi, mikil vonbrigði að okkar frábæri listamaður, Svala Björgvins skyldi ekki fljúga í gegnum fyrri undanriðilinn í Eurovision. Hún átti það svo sannarlega skilið, enda frammistaða hennar landi og þjóð til fyrirmyndar. Auðvitað er erfitt að komast áfram í keppninni. Margir ólíkir menningarheimar mætast og ég leita ávallt í ástæðuna um að austur evrópa stendur saman. Það þarf að finna einhverja ástæðu til að friða pirringinn. Svala gerði sitt besta og var frábær, ég fékk gæsahúð og það er nóg, verum stolt af henni, við snúum ekki baki við landsliðinu vegna tapleiks, er það nokkuð?

Eyrun á mér dofna í hvert skipti sem ég heyri minnihlutan á Alþingi byrja rausið um einkarekstur hér eða þar og að þetta rekstrarform sé verkfæri djöfulsins. Nú fór nær öll vikan og hluti þeirrar síðustu í röfl um sameiningu FÁ og Tækniskólans. Tækniskólinn varð í raun að þeirri öflugu einingu sem hann er í dag vegna sameiningu skóla. Rekstarformið er skýrt, það er ekki greiddur út arður, sé til rekstarafgangur. Heldur fer það fjármagn í uppbyggingu innviði skólans. Þegar þetta form var valið á sínum tíma var það tímabundið, til að sjá hvort og hvernig það virkaði. Það kom glimrandi vel út og var samþykkt af vinstri stjórn að binda það í sessi. En núna er allt annað upp á teningnum, þetta er grábölvað verkefni hægri aflanna í landinu. Sama má segja um græðgi lækna í einkarekstri, en samt rétti vinstri stjórnin tannlæknum þvílíkar upphæðir með niðurgreiðslu tannlæknaþjónustu barna. Það væri ljúft og skylt ef þessir flokkar gætu einu sinni verið samkvæmir sjálfum sér. Tökum VG sem dæmi sem fordæmir stóriðju en samþykktu slíkt voðaverk í stjórnartíð sinni. Hverju eigum við að trúa og treysta í fari þessa flokka? Jú það er bara eitt sem hægt er að treysta á hjá þeim, þú færð minna í launaumslaginu þegar þeir sitja við ríkisstjórnarborðið.

Ungur maður lenti í því leiðilega atviki að bílinn bilaði í umferðaþunga og var vandi að koma bílnum upp á næstu umferðaeyju. Faðir hans var mættur til að hjálpa og fyrr en varir stóð sjálfur forsætisráðherrann og hjálpaði við að ýta bílnum. Bjarna munaði lítið fyrir að hoppa út og hjálpa samborgara sínum í neyð, vel gert Bjarni. EN hvers vegna birti visir.is fyrirsögnina „Bjarni Ben kom vesalingi til hjálpar.“  Til að gera lítið úr fólki sem lendir í því óláni að bíllinn gefur upp öndina? Eða að hæða Bjarna? Þetta eru einkennileg skrif og mín tilfinning er að viðkomandi blaðamaður gat ekki hugsað sér að skrifa jákvæða frétt um Bjarna Ben og varð að hæðast til að draga úr vægi fréttarinnar.

Stuðboltin Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrum ráðherra er komin með nýja diskókúlu. Gekkst hún undir mjaðmakúluskipti á sjúkrahúsi í Svíþjóð í vikunni. Þetta er gott dæmi um vitleysuna í íslensku samfélagi. Rógur gegn einkareknum stofum sem vinna gegn ríkisspítölunum á sama tíma og sjúklingar geta krafist þess að gangast undir aðgerðir erlendis, ef biðlistinn sé langur. Ragnheiður lagðist undir hnífinn á einkareknu sjúkrahúsi í Svíþjóð, já auðvitað viljum við að skattarnir okkar renni í vasa svía en að íslenskir sjálfstæðir læknar fái að njóta þeirra. Læknarnir gætu velt þessu fé út hagkerfið, greitt virðisauka af vöru og þjónustu hérlendis sem skilar sér aftur í ríkissjóð. Hver vill eiginlega slíka vitleysu, auðvitað eigum við að styrkja frekar önnur hagkerfi í fjarlægum löndum og stuðla að flæði fjármagns úr landi. En talandi um ríkisrekna heilbrigðisþjónustu, ég ræddi í vikunni við konu sem pantaði tíma hjá lækni og þegar hún loksins komst að vildi hún láta mæla blóðþrýstinginn. Læknirnn hafnaði þessari vitleysu og bað hana að panta annan tíma fyrir hádegi. Hann mælir ekki blóðþrýsting eftir hádegi. Við sjáum öll að það er ekki hægt að ætlast til þess að vera mældur hvenær sem er dagsins, er það nokkuð?

Ég verð að viðurkenna að leðraðir karlmenn á mótorhjólum eru sannir boðberar sumarsins hjá mér. Þeir eru rétt eins og sjálf lóan, nema það vantar bara undurfagran söng lóunnar í stað vélarhljóðsins ógurlega. En ég gef þeim gaum í umferðinni og nú í vikunni er ég að ganga þvert yfir bílastæði fyrir utan stórmarkað. Þá kemur einn rúllandi á svakalegu hjóli með mjög háu stýri. Ég hugsaði með mér að blóðflæði til handanna getur ekki verið mikið í þessu tilviki. Hjólið rúllar fram hjá mér og ég sný mér við og rek upp stór augu. Jakkinn og buxurnar voru tveimur númerum of litlar svo að við blasti þessi líka svakalegi plömmer. Ég hef bara eitt að segja við þennan mann og það er að vaxa skoruna ef þú ætlar þér að vera boðberi kynþokkans á strætum borgarinnar þetta sumarið. Verst að Bjarni Ben var ekki á svæðinu til að skutla yfir hann teppi til að koma vesalingnum til hjálpar.

Ef hinn almenni borgari væri með 12,8% mætingu til vinnu væri að sjálfsögðu búið að reka viðkomandi. Áhugaverð frétt um mætingar Sigmundar Davíðs í atkvæðagreiðslur á Alþingi, var birt í vikunni. Það eru 140 dagar síðan Sigmundur gaf sér tíma til að mæta í þingsal og greiða atkvæði. Við kjósum okkur fulltrúa á þing og hljótum að krefjast þess að fólki sinni störfum sínum. Þá kom líka fram í fréttinni að Sigmundur hefur mætt á 4 fundi af 13 í utanríkisnefnd. Þessi 4 skipti sem hann mætti kom hann alltaf seint, minnst 20 mínútum of seint, mest einni klukkustund og fjörutíu mínútum. Þetta hljómar eins og lélegt stand up, hvað er maðurinn að gera á þingi? Það er þrennt í stöðunni, Sigmundur er á kafi í undirbúningi fyrir framboð sitt í borginni, eða á kafi í undirbúningi að stofnun nýs stjórnmálaflokks, eða hreinlega er hann hrokafullur og að það sé fyrir neðan hans virðingu að mæta.

Góða helgi,

Árni Árnason.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: