Hér er óbreytt frétt úr Mogga dagsins:
„Auglýsing um veiðigjald á þessu ári hefur verið birt í Stjórnartíðindum. Um talsverða lækkun er að ræða í mörgum fisktegundum, en gjaldið miðast við hvert kíló óslægðs afla sem landað er á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2020. Veiðigjald fyrir þorsk er nú 10,62 kr., 14,86 fyrir ýsu, 1,69 fyrir makríl og 1,57 kr. fyrir kíló af síld.
Landssamband smábátaeigenda hefur reiknað út breytingar í einstökum tegundum og lækkar veiðigjald í þorski um 23%, 8% í ýsu, 50-60% í ufsa, karfa og makríl og yfir 80% í loðnu og kolmunna. Veiðigjald fyrir steinbít hækkar um 16%, samkvæmt yfirliti LS. Áætlað er að innheimta veiðigjalds skili fimm milljörðum kr. á þessu ári, en fyrir nýliðið ár er áætlað að greiddir verði um sjö milljarðar í veiðigjald, lækkunin nemur rúmlega tveimur milljörðum eða tæplega 30%.
Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar síðasta haust fyrir 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 segir:
„Álagning veiðigjalda miðast við rekstrarafkomu útgerðarfyrirtækja árið 2018 og þá var afkoman ekki góð í sögulegu samhengi, hagnaður sá minnsti síðan árið 2010. Það skýrist að hluta til af því að auknar fjárfestingar í sjávarútvegi leiddu til hærri afskrifta árið 2018. Þess má geta að ef veiðigjaldakerfið hefði byggst á eldri lögum hefði heildarinnheimta gjaldsins ekki numið hærri fjárhæð en 2 milljörðum kr. Með gildandi lögum um veiðigjöld er nú áætlað að innheimtan skili 5 milljörðum kr. á næsta ári, [2020]“ segir í nefndarálitinu.“