100 prósent skattur á öryrkja – milljarða afsláttur til útgerða
Ríkisstjórnin forgangsraðar með afar umdeildum hætti. Hyglir útgerðinni, dregur fæturna þegar kemur að lífeyrisþegum.
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur vinnur nú hörðum höndum að lækkun veiðigjalds. Á sama tíma berjarst aðrir hópar vonlítilli baráttu til þess eins
að hafa tekjur sem duga fyrir lágmarksframfærslu.
Ekki orð við skattpíningu
„Þegar aðrir landsmenn eiga möguleika á auknu ráðstöfunarfé með meiri vinnu og hærri launum er í tilviki öryrkjans lagður á 100% skattur. Hver einasta króna skal tekin af þessum eina hópi og jafnvel þeir stjórnmálamenn sem hæst hrópa um skattpíningu segja ekki orð við þessari framkomu. Hvernig getur staðið á því? Hvers vegna hefur þetta þótt réttlætanlegt á sama tíma og verið er að fjárfesta í aukinni virkni þessa sama hóps? Þetta er skammarleg framkoma,“ þetta skrifar Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í grein sem birtist í Mogga dagsins.
Útgerðin sér á parti
Á sama tíma er unnið að því að veita útgerðunum, litlum sem stórum, um þriggja milljarða árlegan afslátt af veiðigjöldunum. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar þingsins og þingmaður VG, fer fyrir málinu. Útgerðin þarf sýnilega ekki að bíða eftir „réttlætinu“ einsog lífeyrisþegar þurfa að gera.
Lilja segir í viðtali við Vísi: „Það hefur alltaf verið talið að veiðigjöld ættu að vera afkomutengd og reynt hefur verið að setja kerfið upp á þann veg. Nýtt frumvarp, sem við ætlum að leggja fram í haust, mun taka á þessum málum þar sem við reiknum veiðigjöld út frá afkomu í rauntíma en ekki afkomu fyrirtækja fyrir tveimur árum.“
Enginn flokkur fyrir okkur
Það er athyglisvert að taka þarf tillit til afkomu útgerðarinnar, en ekki lífeyrisþega. Björgvin Guðmundsson, sem er langöflugasti baráttumaður fyrir kjörum aldraðra, skrifar grein sem birtist í dag. Hann byrjar greinina svona:
„Það er athyglisvert, að enginn stjórnmálaflokkur sker sig úr á Alþingi í baráttu fyrir bættum kjörum eldri borgara. Enginn flokkur berst svo vasklega fyrir eldri borgara, að aldraðir geti sagt án þess að hika: Þetta er flokkurinn okkar. Þeir flokkar, sem bera hag aldraðra fyrir brjósti, verða því að taka sig verulega á. Það er vissulega mikil þörf á því í dag, að þeir geri það. Ríkisstjórnin er aðgerðalaus í þessum málaflokki. Og stjórnarandstaðan stendur sig heldur ekki nógu vel.“