- Advertisement -

10% þeirra sem drekka mest borga 15 milljarða í áfengisgjald: Og fá ekkert fyrir það

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Áfengisgjald samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 2020 er áætlað 20.150 m.kr. Þetta gjald leggst á stóran hóp, samkvæmt upplýsingum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar drekka um 72% fullorðinna Íslendinga eða tæplega 200 þúsund manns. En það drekka ekki allir jafn mikið; sum drekka sáralítið en önnur allt of, allt of mikið. Það hefur ekki verið gerð könnun á Íslandi um hvernig drykkjan dreifist meðal fólks en Bandaríkjamenn hafa skoðað þetta og ætla má að dreifingin sé ekki ósvipuð hér á landi.

Bandaríkjamenn drekka 8,8 alkóhóllítra á mann en Íslendingar 7,7. Í Bandaríkjunum drekka um 28,3% ekki neitt og það sama á við um 28,5% Íslendinga. Ef aðeins eru talin þau sem drekka á annað borð innbyrðir bandarískur drykkjumaður um 13,7 alkóhóllítra að meðaltali á ári en íslenskur 12,8.

Þú gætir haft áhuga á þessum
  • Samkvæmt Bandarískum mælingum skiptir drykkjan svona, þegar við skiptum þjóðinni í tíundir:
  • Fyrsta tíund: 0,0%
  • Önnur tíund: 0,0%
  • Þriðja tíund: 0,0%
  • Fjórða tíund: 0,0%
  • Fimmta tíund: 0,1%
  • Sjötta tíund: 0,6%
  • Sjöunda tíund: 2,2%
  • Áttunda tíund: 6,4%
  • Níunda tíund: 15,5%
  • Tíunda tíund: 75,1%

Samkvæmt þessu drekka 20% af fólkinu 90% af magninu. Og greiði þar af leiðandi 90% af áfengisgjaldinu. 10% af gjaldinu dreifast á 80% af fólkinu.

Ef við reiknum meðaltals framlag tíundanna til ríkissjóðs þá er það svona:

  • Fyrsta tíund: 0 kr.
  • Önnur tíund: 0 kr.
  • Þriðja tíund: 0 kr.
  • Fjórða tíund: 207 kr.
  • Fimmta tíund: 1.452 kr.
  • Sjötta tíund: 6.535 kr.
  • Sjöunda tíund: 22.508 kr.
  • Áttunda tíund: 64.828 kr.
  • Níunda tíund: 158.492 kr.
  • Tíunda tíund: 766.011 kr.

10% þeirra sem drekka mest borga samanlagt samkvæmt þessu um 15.132 m.kr. og 10% sem drekka næst mest 3.131 m.kr. Þetta er það fólk sem er fast í sjúklegri neyslu (alkóhólistar) eða eru í alvarlegri ofneyslu sem draga niður lífsgæði fólksins sjálfs, barna þess, vina og vandamanna. Samanlagt greiðir þessir hópur um 18.263 m.kr. í áfengisgjald á næsta ári.


Kostnaður samfélagsins alls af áfengisneyslu var metinn á um 80 milljarða króna fyrir nokkrum árum.

Kostnaður samfélagsins alls af áfengisneyslu var metinn á um 80 milljarða króna fyrir nokkrum árum. Það mat er í ágætu samhengi við áætlanir Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar á kostnaði samfélaga vegna áfengisneyslu, kannski ívið hærri. Þetta er ekki allt útlagður kostnaður ríkissjóðs heldur tapaðar vinnustundir vegna slysa, veikinda og örorku, töpuð verðmæti vegna ótímabærs dauða o.s.frv. Um 14,5 milljarðar króna voru vegna löggæslu, heilbrigðisþjónustu, barnaverndar, forvarna- og lýðheilsumála. Það er því næsta öruggt að þessi sjúklingahópur, áfengissjúklingar, í félagi með þeim sem eru föst í alvarlegri ofneyslu, greiði ríkissjóði ágætlega rúmlega þann kostnað sem ríkissjóður ber bein vegna áfengisneyslu allra landsmanna (mestur kostnaður er vegna þeirra sem drekka sjúklega eða eru í mikilli ofneyslu).

Til Gistiskýlisins leitar fólk sem er búið að vera í alvarlegri ofneyslu árum saman. Þetta er fólk sem búið er að greiða mikið fé til ríkissjóðs í formi áfengisgjalda. Jafnvel þótt við tökum meðaltal þeirra 10% sem drekka mest, þótt þau sem leita til gistiskýlanna drekki örugglega, og hafi drukkið, meira en meðaltalið í þeim hópi þá hefur fimmtug manneskja sem leitar til gistiskýlanna og sem hefur verið í alvarlegri ofneyslu frá því hún var 25 ára borgað um 19,1 m.kr. í áfengisgjald þegar hún leitar ásjár hins opinbera. Varlega áætlað getum við tvöfaldað þessa tölu því þau sem leita til gistiskýlanna tilheyra örugglega því 1% sem hefur mest drukkið, jafnvel 0,1%, og þeir hópar drekka miklu meira en meðaltal þeirra 10% sem mest drekka.


Oft er þetta fólk um fimmtugt við líkamlega heilsu fólks á áttræðisaldri.

Fyrir nokkrum árum reyndi SÁÁ að fá sveitarfélögin í lið mér sér í kröfugerð á hendur ríkinu að hluti af áfengisgjaldinu rynni til sveitarfélaganna svo þau gætu mætt þörfum verst settu áfengis- og vímuefnasjúklinganna fyrir húsnæði og félagslega þjónustu. Langt leiddir alkóhólistar eru ekki aðeins sjúklingahópur sem fær mjög takmarkaða heilbrigðisþjónustu heldur eru þetta fátækustu borgararnir, hluti fólksins er heimilislaus og allslaus í eiginlegri merkingu þess orðs; á ekkert nema fötin utan á sér. Áfengissýki og ofneysla býr því ekki aðeins til vanda sem ríkinu ber að leysa með heilbrigðisþjónustu, löggæslu og öðru því sem er á ríkisins könnu heldur veldur áfengisneysla auknum kostnaði hjá sveitarfélögunum; þörf fyri húsnæði og félagslega aðstoð, aðhlynningu og stuðning.

Fyrir utan að hafa í raun greitt fyrir þá heilbrigðis- og félagsþjónustu sem þau fá ekki má benda á að fáir langt leiddir alkóhólistar ná eftirlaunaaldri. Oft er þetta fólk um fimmtugt við líkamlega heilsu fólks á áttræðisaldri. Það má því líta á gistiskýlin og önnur búsetuúrræði fyrir hóp hinna eldri sem nota þau sem snemmatekin hjúkrunarrými fyrir aldraða.

Í stað þess að fara fram á að nágrannasveitarfélögin borgi sér fyrir gistiskýlin ætti Reykjavíkurborg að gera kröfu með öðrum sveitarfélögum um að sveitarfélögin fái 10% eða 20%, jafnvel 50%, af áfengisgjaldinu til að mæta þeim kostnaði sem leggst á sveitarfélögin vegna áfengisneyslu og ekki síst til að þjóna þessum sjúklingahópi, sem er í reynd enn haldið utan borgarmúranna eins og holdsveikum í fornöld. Það er kominn tími til að sinna áfengis- og vímuefnasjúklingum eins og þeir eiga skilið. Og eins og þeir hafa borgað fyrir.

Eftirmáli: Hin drukknu og hin ríku

Áfengisgjaldið á næsta ári er áætlað 20.150 m.kr. Eins og hér hefur komið fram má áætla að 10% fólks, tæplega 20 þúsund manns, greiði um 15.132 m.kr. af þeirri upphæð.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að fjármagnstekjuskattur verði um 32.500 m.kr. Eins og með áfengisgjaldið þá leggst það ekki jafnt á alla. Hin efnamestu borga mest því þau eiga mestar eignir sem skila mestum arði. Árið 2016 borguðu 10% hinna eignamestu 78% af skattinum og næsta tíund um 10%. Hlutföllin er því svipuð og varðandi áfengisgjaldið.

Munurinn á áfengisgjaldi og fjármagnstekjuskatti er að áfengisgjald er óvenjuhátt á Íslandi á meðan fjármagnstekjuskattur er óvenju lágur. Það er eitthvað skrítið við að 10% ríkustu fjármagnseigendanna borgi aðeins 25 milljarðar króna þegar 10% mestu fyllibytturnar borga 15 milljarða. Fjármagnseigendur fá dómskerfi og lögreglu til að verja einkaréttinn, hafa nánast alla stjórnmálaflokkanna í vasanum og stjórnsýslu sem sinnir fyrst og síðast hagsmunum þeirra en áfengissjúklingarnir fá svo til ekkert fyrir framlag sitt, ekki einu sinni rúm þegar þeir hafa í engin hús að venda.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: