- Advertisement -

Ást Íslendinga á hinum ríku er heit:

– Íslendingar skattleggja tekjuhæsta prósentið um 16,1 milljarð minna en Danir.

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.
Það er það sem íslensk stjórnvöld skilja eftir hjá hinum ríkustu miðað við hvað dönsk skattyfirvöld innheimta í tekjuskatta af atvinnu- og fjármagnstekjum.

Danir eru bæði með hærri fjármagnstekjuskatt og hærra efsta þrep tekjuskatts en Íslendingar og munar þó nokkru. Fjármagnstekjuskattur er í tveimur þrepum í Danmörku, 27% og 42%, en hér er aðeins eitt þrep, 22%. Efsta þrep tekjuskatts er 56,5% í Danmörku (eftir um 870 þús. kr. á mánuði) en er á Íslandi 46,2% (eftir 927.087 kr. á mánuði). Þessi munur á skattheimtu kemur íslensku auðfólki og hinum allra tekjuhæstu fyrst og fremst til góða. Samkvæmt yfirliti Stundarinnar yfir 1% hinna tekjuhæstu á Íslandi árið 2018 voru þau með um 105,6 milljarða króna í tekjur og borgaði af þeim 32,9 milljarða króna í skatta, eða 31,2%. Ef við leggjum danska skatta á þennan hóp hefði hann borgað 49,0 milljarða króna í skatt eða 46,4%. Mismunurinn er 16,1 milljarðar króna. Það er það sem íslensk stjórnvöld skilja eftir hjá hinum ríkustu miðað við hvað dönsk skattyfirvöld innheimta í tekjuskatta af atvinnu- og fjármagnstekjum. Íslensk stjórnvöld láta 1/3 af skattinum vera sem dönsk yfirvöld innheimta. Og hafa þess minna til ráðstöfunar í grunnkerfi samfélagsins, innviði og velferð.

Þú gætir haft áhuga á þessum


Samanlögð eftirgjöf íslenskra stjórnvalda til hinna tekjuhæstu er því nærri 20 milljörðum króna umfram það sem frændur okkar Danir sætta sig við.

Til að gefa hugmynd um hvað 16,1 milljarður er há upphæð í fjármálum ríkissjóðs þá er samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020 gert ráð fyrir að 13,1 milljörðum verði varið í barnabætur. Miðað við skattafslátt vegna tekna 2152 hinna ríkustu miðað við danska skattastefnu þá fær þessi hópur fimmtungi meira en rúmlega 80 þúsund börn fá í barnabætur.

Framlag til fæðingarorlofs samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2020 er 15,6 milljarðar króna. Stjórnvöld gefa hærri upphæð eftir til 1% hinna tekjuhæstu, leggja meira áherslu á að þau hafi það súper gott en að foreldrar geti verið heima hjá nýfæddum börnum sínum.

Ef við tökum aðeins tekjur 0,1% hinna tekjuhæstu, 215 manns, þá er skattafslátturinn til þeirra um 7,7 milljarðar króna miðað við dönsk skattalög, eða um 35,9 m.kr. á mann. 7,7 milljarðar er rétt rúmlega tvöfalt framlag ríkissjóðs til útlendingamála. Að baki framlagi til útlendingamál eru rúmlega þúsund manns sem sækja hér um hæli eða vernd, svo segja má að hver ríkur maður kosti ríkissjóð um tíu sinnum meira en hver fátækur flóttamaður.

Hér hefur aðeins verið fjallað um tekjuskatta, en í Danmörku er greiddur skattur af fasteignum til ríkisins þótt auðlegðarskattar séu þar engir eins og hér. Í úttekt Stundarinnar kemur ekki fram hverjar eignir 1% hinna tekjuhæstu voru, en út frá upplýsingum frá Ríkisskattstjóra um eignir ríkasta eins prósentsins má ætla að þessi hópur þyrfti að greiða um 3,0 til 3,5 milljarð króna til viðbótar í fasteignaskatta umfram fasteignagjöld, sem renna til sveitarfélaga, ef hér væri danskt skattkerfi. Samanlögð eftirgjöf íslenskra stjórnvalda til hinna tekjuhæstu er því nærri 20 milljörðum króna umfram það sem frændur okkar Danir sætta sig við.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: