„Þriðji orkupakkinn hefur í raun engin áhrif á Íslandi“
- á meðan landið er ekki hluti af evrópskum orkumarkaði, sem gerist ekki nema héðan verði hugsanlega ef til vill kannski lagður sæstrengur sem í ofanálag yrði væntanlega lagður til Bretlands sem er á leiðinni út úr Evrópusambandinu.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir skrifar: „Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með þeirri umræðu sem hefur skapast hér á landi og í Noregi um áhrif þriðja orkupakkans. Í raun hefði hún verið skiljanlegri þegar fyrsti og annar orkupakkinn voru til umfjöllunar seint á síðustu öld og snemma á þessari, en í þeim voru mun umfangsmeiri breytingar gerðar á umhverfi orkumála en munu verða með þeim þriðja.
Norska þingið samþykkti þriðja orkupakkann síðastliðið vor og mun hann væntanlega koma til umræðu á Alþingi í febrúar. Ljóst er að nú þegar bæði Noregur og Liechtenstein hafa samþykkt orkupakkann er töluverð pressa á Ísland að gera slíkt hið sama. Eins og kemur fram í minnisblaði frá BBA Legal þá hefur það aldrei gerst að EFTA ríkin hafi hafnað ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar, því er ekki hægt að fullyrða með vissu hverjar yrðu lögfræðilegar afleiðingar slíkrar höfnunar, en líklegt er að þær yrðu þó nokkrar. Samkvæmt sérfræðingum á sviði Evrópulöggjafar og orkumála þá er ljóst að ekki munu miklar breytingar fylgja samþykkt þriðja orkupakkans fyrir okkur Íslendinga. Þannig telja sérfræðingar að þriðji orkupakkinn haggi í engu heimildum íslenskra stjórnvalda til að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindum sem eru í opinberri eigu né rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar og hvaða orkugjafar eru nýttir hér á landi.
Þriðja orkupakkanum er þannig ætlað að klára að skipa innri orkumarkað Evrópusambandsins fyrir jarðgas og raforku. Innri orkumarkaðinum er ætlað að auka samþættingu innviða, stuðla að samkeppni og lægra orkuverði og auðvitað, eins og er í sjálfu sér eitt af upphaflegu markmiðum Evrópusamstarfsins – að tryggja orkuöryggi í Evrópu.
Í þriðja orkupakkanum er sömuleiðis tenging við 2020 markmiðin – það er að árið 2020 skuli endurnýjanlegir orkugjafar sjá ríkjunum fyrir a.m.k. 20% orkuþarfarinnar, orkunýtni skuli aukin um 20% og losun gróðurhúsalofttegunda minnkuð um 20%. Þá má einnig nefna að þriðji orkupakkinn leggur áherslu á valdeflingu viðskiptavinarins í þágu samkeppninnar. Þannig ætti að hvetja neytendur og smærri aðila, til dæmis garðyrkjubændur, til að taka sig saman í einskonar kaupfélög til að fá ódýrari raforku.
Rétt er að nefna að þriðji orkupakkinn hefur í raun engin áhrif á Íslandi á meðan landið er ekki hluti af evrópskum orkumarkaði, sem gerist ekki nema héðan verði hugsanlega ef til vill kannski lagður sæstrengur sem í ofanálag yrði væntanlega lagður til Bretlands sem er á leiðinni út úr Evrópusambandinu. Þessi einangrun okkar frá öðrum orkumörkuðum mun jafnframt veita okkur víðtækar undanþágur frá flestum helstu skyldum sem fylgja nýju löggjöfinni. Þá má nefna að eftirlitsstofnunin ACER mun ekki hafa neitt að segja um til að mynda fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi heldur verða valdheimildir gagnvart einkaaðilum hérlendis og valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum hjá ESA.
Þriðji orkupakkinn mun koma til umræðu inn í þinginu í vetur og verður þá málið skoðað frá öllum hliðum á þeim vettvangi. Þingmenn Samfylkingarinnar munu auðvitað nálgast málið af opnum huga en eins og málið lítur út í dag þá er ekki að sjá að upptaka þriðja orkupakkans muni valda neinum vandkvæðum á Íslandi og því ekki ástæða til að setja EES samstarfið í uppnám.“
Greinin birtist á Facebooksíðu höfundar.