- Advertisement -

Reynt að einangra blaðamann

Umræða Best er að taka fram strax í upphafi, að ég hef engar áhyggjur af eigin stöðu. Ég hef áhyggjur af íslenskum fjölmiðlum. Það sem ég segi hér að neðan getur ekki verið, og er eflaust ekki, einsdæmi. Ég er sannfærður um að aðrir sem hafa starfað við fjölmiðla geta sagt svipaðar sögur. Það kostar að vera frjáls blaðamaður. Og hefur eflaust alltaf gert. Nú er staðan verri en nokkru sinni.

Ég ætla að nefna tvö nýleg dæmi.

Tala aldrei við þig aftur

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti í heyrandi hljóði að hann ætlaði aldrei að tala við mig framar. En hvers vegna? Jú, hann sagði mig hafa borið út óhróður um sig og fjölskyldu sína. Það er rangt, hjá þér, svaraði ég. Hann gaf sig ekki, hækkaði róminn og gaf sig ekki. Ég bar enn af mér sakir. Hann sá af sér, dró aðeins í land og sagði mig hafa lækað færslu á Facebook sem hann væri ekki sáttur við. Ég spurði hvort ákvörðun hans um að tala aldrei framar við mig breyttist við þetta. Nei. Hann lagði áherslu á neiið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En hver var færslan, jú þessi: „Engey er víða. Áður en neyðarlögin voru sett hringdi Sturla Pálsson, hagfræðingur í Seðlabankanum, í konu sína, Helgu Jónsdóttir, eins og fram kom í Kastljósi, og upplýsti um yfirvofandi aðgerðir bankans. Helga er dóttir Guðrúnar Sveinsdóttur, systur þeirra Einars og Benedikts Sveinssonar, stórtækra fjárfesta. Benedikt er faðir Bjarna, sem nú er fjármálaráðherra. Hann og Helga eru systkinabörn. Áður en neyðarlögin voru sett fengu Engeyingar því viðvörun og svigrúm til að bjarga sínu. Algjörir snillingar.“ Það var bróðir minn Gunnar Smári Egilsson sem skrifaði og ég lækaði. Færslan birtist 19. október s.l.

Af orðum ráðherrans má telja víst að hann verji talsverðum tíma til að lesa Facebook og sjá hver skrifar hvað, og hverjum líka skrifin og hann safni þá saman upplýsingum um það fólk sem hann telur vinveitt og óvinveitt.

Viðreisn og Hringbraut

Síðastliðið vor vann ég nokkra þætti, sem ég nefndi Svarfugl, fyrir sjónvarpsstöðina Hringbraut. Skemmst er frá að segja að þættirnir fengu fínasta áhorf og allir voru sáttir. Ákveðið var að hittast í sumar og ákveða fyrirkomulagið í haust. Starfsmenn stöðvarinnar sögðust hlakka til að fá mig aftur og ekki síst þáverandi aðaleigandi.

Sjónvarpsstjóri og dagskrárstjóri Hringbrautar gerðu ráð fyrir þáttunum mínum í vetrardagskrá stöðvarinnar. Á fundi sá ég að ekki var allt einsog stefnt var að. Ég spurði hvort svo væri að nýir fjárhagslegir bakhjarlar stöðvarinnar vildu mig ekki á dagskrá, gegnt vilja stjórnenda stöðvarinnar. Grunur minn reyndist réttur. Peningavaldið beitti sér. Sagði nei. En hvers vegna? Þættirnir höfðu jú fengið fínasta áhorf. Jú, gagnrýnin skrif mín um Viðreisn gerðu útslagið.

Áhugi minn fór nú minnkandi. Meðal annars vegna þess að Hringbraut hefur ekki getað  gert upp við mig og skuldar mér, á minn mælikvarða, umtalsverða peninga.

Starfsmenn Hringbrautar fengu þrátt fyrir það leyfi mitt til að reyna áfram. Lokasvarið var það sama og áður. Nei, sögðu peningarnir og tóku framfyrir hendur starfsmanna og stjórnenda stöðvarinnar.

Nú hafa orðið breytingar á eignarahaldi. Þeir sem áður höfðu neitunarvald um dagskrá stöðvarinnar hafa nú eignast hana og hafa því væntanlega alræðisvald. Og enn skuldar Hringbraut mér peninga.

Frá 1991

Ég varð þingfréttamaður árið 1991. Allt frá þeim tíma hef ég átt í samskiptum við margt fólk sem hefur starfað í stórnmálum. Stundum hefur slegið í brýnu. Almennt stóð það stutt og áfram var haldið einsog ekkert hafi í skorist. Í dag er þetta bara öðruvísi.

Mér eru eðlilega margir þingmenn, forsetar og ráðherrar minnisstæðir. Ég hef kynnst mörgu sómafólki í þessari vinnu. Bæði þá og nú. Samt hefur þetta breyst. Það sem fólk eflaust hugsaði ekki áður, tíðkast nú.

Í nútímanum er bara ekki hægt að þagga niður umræðu. Möguleikarnir eru það margir.

Hversu margir blaðamenn, fréttamenn eða aðrir hafa þurft að þola ámóta og ég hef lýst hér? Ég er viss um að þeir eru margir. Það sem meira er að ég nefndi aðeins tvö síðustu dæmin. Ég á fleiri.

 

Ég endurtek, að ég hef engar áhyggjur af eigin stöðu. Ég hef setið í dómsal og neitaði dómara ítrekað að benda á heimildarmenn. Það fannst mér fínt. Það að sæta þöggun einsog ég hef nefnt er ekki alsæmt. Ekki fyrir einn mann. Það er hinsvegar afleitt fyrir fjölmiðlun á Íslandi.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: