Mjólk er holl
Kári Stefánsson skrifar: Það er ekkert sem afsakar ýmislegt af því sem þingmennirnir sex, Miðflokksins og Flokks fólksins, sögðu á Klausturkránni um daginn. Það er svo nákvæmlega ekkert, að þótt allir meðlimir í Landssambandi flugbjörgunarsveita færu að leita að afsökun, er öruggt að þeir fyndu enga. Það er hins vegar að vissu leyti athyglisvert að velta því fyrir sér hvort á þessu sé einhver skýring önnur en sú að þingmennirnir sex séu sóðalegir skíthælar. Ein er sú að þau voru öll undir áhrifum áfengis. Sú staðreynd að þau voru undir áhrifum áfengis á þessum tíma bendir meðal annars til þess að þau hafi líka verið undir áhrifum áfengis á öðrum tímum.
Áfengi hefur ýmiss konar áhrif á starfsemi heilans bæði meðan styrkur þess í blóði er mælanlegur og þegar hann er það ekki ef einstaklingurinn hefur neytt þess um lengri tíma og oft. Þessi tvenns konar áhrif eiga það sameiginlegt að þeim fylgir hömluleysi alls konar. Framheilinn sem gegnir eftirlitshlutverki og ritstýrir tjáningu og annarri hegðun virkar ekki eins og skyldi. Það vill hins vegar svo vel til að ef sá sem hefur laskað á sér heilann með áfengi heldur sig frá því um lengri tíma getur heilinn náð sér og farið aftur að aga tjáningu og aðra hegðun.
Ég ætla af örlæti mínu að gefa mér þá forsendu að áfengisneysla þingmannanna sex, bæði á fundinum á Klausturkránni og á dögum og árum áður, sé að hluta til ábyrg fyrir orðbragðinu óásættanlega og þeim sóðalegu hugsunum sem að baki því bjuggu. Ef sú forsenda reynist rétt eiga þau von. Þau geta tékkað sig inn á Vog og þaðan á Vík og að því loknu mætt á AA fundi. Ef vel tekst til jafna heilar þeirra sig og þau verða að ásættanlegum eintökum af dýrategundinni sem þau tilheyra. Áður en þau reyna að tékka sig inn á Vog væri skynsamlegt af þeim að greiða atkvæði með auknu fjármagni til SÁÁ, annars er hætta á því að þau kæmust ekki inn fyrr en á fardögum að vori. Það bæri líka vott um tillitssemi ef þau frestuðu því þangað til búið er að skilja á milli unglinga og fullorðinna á Vogi vegna þess að unglingarnir eru svo áhrifagjarnir. Nú má vel vera að þau séu mér ósammála og haldi því fram að heilar þeirra séu með öllu óskemmdir af áfengi og skandallinn eigi eingöngu rætur sínar í því að þau séu hreinræktaðir skíthælar. Þrátt fyrir það ættu þau að fara á Vog vegna þess að skíthællinn í þeim hefur tilhneigingu til þess að verða nakinn þegar þau eru undir áhrifum.
Það er svo sjálfstætt rannsóknarefni hvernig sexmenningarnir hafa brugðist við því að saurmælgi þeirra barst með kvöldgolunni til eyrna annarra. Sigmundur Davíð kenndi þeim um sem heyrðu, ekki þeim sem sögðu. Vondi karlinn var sá sem tók upp sóðaskapinn, ekki þau sem frömdu hann. Þetta minnir helst á þegar sænskur sjónvarpsmaður afhjúpaði fyrir alþjóð að þegar hann, Sigmundur Davíð forsætisráðherra Íslands, var að semja við kröfuhafana í föllnu íslensku bankana var hann sjálfur einn af þeim. Það var auðvitað sjónvarpsmanninum að kenna. Þegar honum er bent á að hann sitji beggja vegna borðsins þegar hann er að semja fyrir hönd Íslands kennir hann um þeim sem raðaði stólunum. En eitt vitum við nú sem við vissum ekki áður en Sigmundur Davíð fór að tjá sig um Klausturkráarskandalinn, hann lofaði ömmu sinni að blóta aldrei og stendur við það.
Greinin birtist á Facebooksíðu Kára.