Ragnar Þór Ingólfsson, skrifar: Ég hef þungar áhyggjur af stöðu flugfélaganna og einnig af umræðunni.
Mér finnst stundum eins og hlakki í fólki þegar illa gengur og allir leggjast á eitt við að „sparka í liggjandi mann“.
Við tökum jafnvel stöðu með öðrum þó báðir séu raunverulega á sama stað.
Ég hlustaði á viðtal við fréttamann sem talaði um hversu sterk staðan væri hjá öðru flugfélaginu vegna góðrar eiginfjárstöðu. Eigið fé væri 55 milljarðar en skráð virði félagsins aðeins 34 milljarðar og væri því stórkostlega vanmetið. Bætti síðan við að hægt væri að reka það með tapi í 10 ár án þess að fara á hausinn, sem ég stórlega efast um að sé raunin, og hélt svo áfram um að sjálfur Warren Buffet mundi kaupa hvurt einasta bréf ef hann væri fjárfestir á Íslandi.
„Ef við berum saman fákeppnina á flugsamgöngum í innanlandsflugi þá kostar álíka mikið að fljúga til Akureyrar og Indlands.“
Nú þekki ég ekki hvort eða hversu mikil viðskiptavild/óefnislegar eignir eru af „eignum“ félagsins en veit þó að Buffet var eitt sinn spurður um heilræði eða galdurinn á bakvið velgengni sína og stóð ekki á svari sem var á þá leið að fjárfesta aldrei í flugfélögum.
Án þess að tala niður flugfélögin þá vita flestir að áhættumeiri fjárfesting er varla til og getur eigið fé þurrkast út á ævintýralega stuttum tíma samanborið við fyrirtæki sem eru t.d. í línulegum rekstri.
Þetta þekkjum við á stöðu lífeyrissjóðanna sem hafa tekið á sig miklar sveiflur á bókfærðu virði Icelandair og þurfa nú, á aðeins nokkrum dögum, að skrifa niður fleiri milljarða en heildartapið á síðasta kísilverksmiðjuævintýri var.
En það var ekki þetta sem ég ætlaði að fara eitthvað sérstaklega útí heldur hvað flugfélögin hafa gert fyrir íslenskt hagkerfi, ef við tökum ferðamannaflutninga út fyrir sviga. Þau skapa þúsundir starfa fyrir íslenskt samfélag. Sú mikla og aukna samkeppni innlendra og erlendra flugfélaga á flugferðum til og frá landinu hefur vissulega gert rekstur þeirra erfiðan en fyrir neytendur þá hefur staðan aldrei verið betri. Ef við berum saman fákeppnina á flugsamgöngum í innanlandsflugi þá kostar álíka mikið að fljúga til Akureyrar og Indlands.
Hefur þetta alltaf verið svona?
Man einhver hvað kostaði að fljúga á milli landa þegar samkeppni var lítil sem engin?
Það er því gríðarlega mikilvægt að BÁÐUM! flugfélögunum okkar takist að rétta úr kútnum og komast í gegnum þann ólgusjó sem framundan er.
Það hjálpar ekki að tala þau það mikið niður að við þorum ekki að eiga við þau viðskipti en þá fyrst getum við bókað að geta ekki bókað með þeim flug aftur.
Hugsum vandlega um afleiðingar eigin óska.
Birtist á Facebooksíðu höfundar. Fyrirsagnir og myndaval er Miðjunnar.