- Advertisement -

Golf á Skagaströnd: Háagerðisvöllur er fínn, krefjandi og þrifalegur

Golfskálinn er ekki stór, en hann er snyrtilegur og umfram allt, heimilislegur.

Það fyrsta sem mætir fólki sem kemur á Háagerðuisvöll á Skagaströnd er snyrtimennska. Þar er allt hreint og öllu er sýnilega vel viðhaldið. Það næsta sem leitar á hugann, er hvernig unnt er að hafa eins góðan golfvöll, og Háagerðisvöll, í eins fámennu sveitarfélagi og Skagaströnd er. Það er nokkuð merkilegt.

Svarið er eflaust það sama. Mikil vinna fárra manna sem greinilega telja ekki eftir sér að sinna vellinum. Þeim hefur tekist vel upp.

Golfskálinn er lítill, en hann, sem og annað, er hreinn og umgengnin er til fyrirmyndar. Völlurinn er níu holur og par 36, eða 72 þegar leiknar eru átján brautir, tveir hringir. Völlurinn er 2543 metrar, eða 5086, af gulum teigum og 2254, eða 4508, af rauðum teigum.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Flötin á 4. braut. Mjög falleg og skemmtileg.

Fysta braut er skemmtileg par 3. Önnur er par 5 og þriðja braut er par 4. Fjórða braut endar á afskaplega fallegu og spennandi flöt, sem liggur milli lágra kletta. Brautirnar koma svo hver af annarri. Níunda, og þá síðasta braut vallarins, er mjög skemmtileg og krefjandi par 4.

Margir stærri golfklúbbar mættu taka sér þetta til fyrirmyndar. Á Háagerðisvelli á Skagaströnd eru margir bekkir, sem fínt getur verið að tylla sér á, einkum þegar þarf að bíða. Upplýsingaskiltin við hverja braut eru mjög góð. Upplýsingar eru nákvæmar, til dæmis er sagt hver hækkun eða lækkun brautarinnar er, hversu löng hún er og það allt saman. Síðan eru stutt sögubrot og tilvitnanir í fræga golfara.

Háagerðisvöllur er fínn golfvöllur sem krefst nokkurs af leikmönnum. Þau sem léku völlinn í þessu tilviki eru bæði með tæpa tuttugu í forgjöf og þurftu að hafa fyrir nokkrum brautum.

Niðurstaðan er einföld. Háagerðisvöllur er fínn golfvöllur og ættu sem flestir að prófa að leika þar. Ástæðurnar eru nokkrar. Völlurinn er skemmtilegur, vel er um allt hugsað og útsýnið er frábært.

Daginn eftir var leikið á Hlíðarendavelli á Sauðárkróki. Frásögn af þeim velli birtist hér á morgun.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: